Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:42:50 (329)

2001-10-09 18:42:50# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni að þar skilur á milli hægri manna og okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að við viljum beita sköttum til jöfnuðar. Við viljum beita sköttum til að standa undir öflugu velferðarkerfi, öflugu menntakerfi og við viljum jafna lífskjör fólks með sköttum þegar nauðsyn krefur. Þar greinir á milli okkar og Sjálfstfl. að þeir vilja að þeir sem hafi hæstar tekjurnar fái að njóta þess og greiði þar af leiðandi hlutfallslega minni skatta. Þar skilur á milli.

En varðandi þau orð hv. þm. að verið væri að tala niður til landsbyggðarinnar og að þessar skattaáherslur ríkisstjórnarinnar komi þar harðast niður, þá er afar mikilvægt að hv. þm. átti sig á þeirri staðreynd að á síðasta fimm ára tímabili, aðeins á fimm ára tímabili undir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafa þau 14.000 ný störf sem hafa orðið til í landinu öll orðið til á höfuðborgarsvæðinu. Við erum um 280 þús. manns, 14.000 ný störf urðu til á þessu fimm ára tímabili, en aukningin um þau 14.000 störf verður öll á því svæði þar sem aðeins 190 þús. manns búa. Og er það nema von að sveitarstjórnir, hvort sem það er á Norðurl. v. eða á Vestf., komi með ákall til ríkisstjórnarinnar og Alþingis um að beita þeim tækjum, beita því afli sem ríkisvaldið hefur í gegnum skattkerfið til að reyna að ráða þarna bót á og leiðrétta til að snúa slíkri þróun við. Hvað ætlar hv. þm. að segja við sveitarstjórnir á Norðurl. v. sem bera fram þetta ákall?