Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:05:36 (350)

2001-10-10 14:05:36# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Ríkisútvarpið hefur sætt margs konar þrengingum í sínum rekstri undanfarin ár og það má segja að steininn hafi tekið úr á þessu ári og þessu hausti.

Það er alveg skýrt að það er menntmrh. sem ber ábyrgð á rekstrarlegum málefnum Ríkisútvarpsins, ráðherra skipar sjálfur alla framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins sem fer með rekstrarvald, útvarpsstjóra, forstöðumenn deilda og formann útvarpsráðs. Ríkisútvarpið hefur með margvíslegum hætti búið við þrengdan hag undanfarin missiri og ár. Þar má fyrst nefna að afnotagjaldi hefur verið haldið lítt breyttu og það hefur engan veginn fylgt kostnaðarhækkunum í rekstri útvarpsins. Ríkisútvarpið hefur þar af leiðandi verið þvingað til að keppa á auglýsingamarkaði af ýtrasta mætti, fara út í aukna kostun efnis o.s.frv.

Í öðru lagi voru uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins, sem myndast höfðu á löngum starfstíma, færðar yfir á stofnunina fyrir nokkrum árum án þess að útvarpinu væri gert það léttara eða kleift að bera þær á nokkurn hátt. Þær verka nú mjög íþyngjandi á fjárhag útvarpsins og yfir 200 millj. kr. á ári fara úr rekstri stofnunarinnar af þeim sökum. Flutningur sjónvarpsins í Efstaleiti á síðasta ári varð einnig kostnaðarsamur, kostaði yfir einn milljarð kr., án þess að Ríkisútvarpinu væri gert auðveldara að mæta þeim kostnaði.

Tap hefur verið á rekstri fyrirtækisins undanfarin ár, það safnast upp. Eigið fé hefur fallið úr um 90%, eins og það var fyrir sex til sjö árum, niður í um 20% nú. Það er svo komið, herra forseti, að Ríkisútvarpið er rekið á yfirdráttarheimild. Það er rekið á fitti og það er náttúrlega ekki gott ráðslag eins og allir hljóta að sjá. Skuldir útvarpsins eru að verulegu leyti í erlendri mynt þannig að með gengisfalli krónunnar hafa þær þyngst á fóðrum en tekjurnar falla til í íslenskum krónum, eins og öllum er ljóst.

Margvíslegar aðgerðir sem nú er verið að grípa til og misjafnlega yfirvegaðar sumar valda óánægju meðal starfsmanna og birtast m.a. í því að hlutfall fjármuna útvarpsins sem fer til beinnar dagskrárgerðar er í fyrsta skipti í sögunni komið niður fyrir 60%. Einna tilfinnanlegast, herra forseti, og kannski hvað táknrænast koma þessar þrengingar Ríkisútvarpsins niður á rekstri svæðisstöðvanna. Á Akureyri hófst sú starfsemi 1985 og morgunútsendingar hófust fyrir fjórtán árum, á árinu 1987. Þeim var hætt nú 1. okt. sl. Á Akureyri voru þegar best lét 12--15 manns við störf í rúmum tíu stöðugildum. Þar eru núna sex störf eftir. Þar fækkaði um tvo á þessu hausti, útsendingartími og þjónusta hefur dregist verulega saman og tekjur munu þar af leiðandi falla þannig að þegar upp er staðið verður sáralítill sparnaður af fyrirtækinu. Á Egilsstöðum er útsendingartíminn að dragast saman um 28% og á Ísafirði, þar sem aðeins þrjú störf voru á svæðisstöðinni, hefur núna verið skorið niður hálft stöðugildi tæknimanns þannig að möguleikar þeirrar stöðvar til að þjóna bæði útvarpi og sjónvarpi eru verulega skertir.

Þetta, herra forseti, er mjög bagalegt, ekki síst vegna þess að svæðisbundin fjölmiðlun á landsbyggðinni hefur veikst á undanförnum árum og hlutverk svæðisstöðva Ríkisútvarpsins þar af leiðandi verið þeim mun mikilvægara. Þarna hefur verið mikilvæg þjónusta bæði sem fréttamiðlun innan svæðis sem framlag til dagskrárgerðar allra landsmanna og til að tengja saman í þessum efnum, fréttalega og menningarlega, landsbyggð og höfuðborgarsvæði.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst það ótrúlegt metnaðarleysi, aumingjadómur, að standa nú þannig að málefnum Ríkisútvarpsins á þessum tímum að það uppbyggingarstarf sem þar hefur verið unnið, t.d. á svæðisstöðvunum, skuli núna vera að koðna niður. Það er þá ekki góðærinu fyrir að fara a.m.k. í þessum efnum. Við hljótum að spyrja hæstv. menntmrh., sem óumdeilanlega ber hér rekstrarlega ábyrgð sem yfirmaður Ríkisútvarpsins og þá sá meiri hluti hér á Alþingi sem hann styður:

Er ætlunin að láta þetta viðgangast svona áfram, dankast svona áfram? Er ætlunin að halda áfram að þrengja að Ríkisútvarpinu, einni mikilvægustu menningarstofnun landsins, eða verða Ríkisútvarpinu sköpuð skilyrði til að sinna hlutverki sínu með reisn á nýjan leik?

Það er óhjákvæmilegt að menntmrh. geri grein fyrir stöðunni því að við svo búið má ekki standa lengur.