Innkaup heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:45:20 (364)

2001-10-10 14:45:20# 127. lþ. 8.1 fundur 64. mál: #A innkaup heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það kemur í ljós í svari hæstv. ráðherra að engin samhæfing er í tækjakaupum. Þó að beiðnir komi fram fyrir fjárlagagerðina og það sé metið hvort kaupa eigi tæki er ekki nein vinna lögð í að samhæfa tækjakaupin þannig að leitað verði sameiginlegra útboða við kaup á mjög dýrum tækjum, eins og ég benti t.d. á í sambandi við röntgentækin, sem ég teldi mikla þörf á. Það er auðvitað mjög mikilvægt að menn kaupi vandaða vöru og menn mega ekki dragast aftur úr vegna sparnaðar en það verður að mínu mati, og ég get ekki heyrt annað en að ráðherra taki undir, að efla eftirlit með tækjakaupum til að ná fram hagkvæmni og nýta betur almannafé.

Ég minni á dæmið um hjólastólana sem ég nefndi áðan, þar sem hjólastóll kostar 15 þús. kr. í hagkvæmustu kaupum en 50--70 þús. kr. annars staðar, þannig að það munar verulega miklu.

Líka væri fróðlegt að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um það hvort hann hefur upplýsingar um hve mikið af innkaupum stofnana og tækjakaupum heilbrigðisstofnana er boðið út.

Ég hefði líka talið ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann hefur það á takteinunum, út í boðsferðir lyfjafyrirtækja þar sem læknum eru kynnt ákveðin lyf sem eru ekki endilega alltaf ódýrustu lyfin. Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi skoðað þau mál og kannað áhrif þessara ferða, svokallaðra boðsferða, á lyfjainnkaup og lyfjakostnað, og ef hann hefur ekki gert það, hvort hann telji ekki ástæðu til að skoða þann þátt.

En það er mjög mikilvægt, herra forseti, að það sé fylgst mjög náið með innkaupum sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana og að hópur sérfræðinga vegi og meti þörf til innkaupanna og síðan hvernig til hafi tekist með þau.