Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:17:32 (412)

2001-10-11 11:17:32# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að það hafi margt gerst í þessu máli frá því hv. þm. tók síðast til máls um þetta efni í þinginu. Þetta mál er mjög langt komið. Það eru að nást samningar við sveitarfélögin um það.

Auðvitað er algjörlega af og frá og ótrúlegur málflutningur að tala um að verið sé að ganga að eignum sveitarfélaganna eða hafa af þeim eignir þeirra. Það er verið að borga þeim stórfé fyrir þessar eignir, 2,8 milljarða, eins og hér kemur fram. Það er gert með ákveðnum skilyrðum, þ.e. að gerð verði upp vanskil í íbúðalánakerfinu og að fullt samráð verði haft við eftirlitsnefnd sveitarfélaganna þar sem það á við. Sum sveitarfélög eru komin á það stig fjárhagslega að eftirlitsnefndin hefur hafið störf að því er þau varðar. Og það sem snýr að félagslega kerfinu að öðru leyti, að því er varðar að gera það sjálfbært í þessum sveitarfélögum, að það fjármagn sem þar er um að ræða verði sett á sérstakan biðreikning á meðan beðið er lausnar á landsvísu að því er þetta vandamál varðar.

Að öðru leyti fá sveitarfélögin í beinhörðum peningum þá upphæð sem umfram þetta er. Nú er vissulega misjafnt hversu mikið er þar um að ræða. Sum sveitarfélög fá verulega miklar fjárhæðir út úr þessu, verulega mikla peninga sem skipta þau miklu máli við að endurskipuleggja fjármál sín sem full nauðsyn er á að gert verði. En þetta leysir ekki vanda allra sveitarfélaganna. Vesturbyggð hefur nokkra sérstöðu eins og allir vita vegna þess hvernig málum er komið í því sveitarfélagi.

En að öðru leyti tel ég að þetta sé afskaplega vel heppnuð aðgerð þar sem ríkisvaldið kaupir þessa eign af sveitarfélögunum og það er auðvitað gert með kaupsamningi sem báðir skrifa undir. Þetta er samningur sem gerður er og sveitarfélögin geta út af fyrir sig hafnað því að taka þátt í þessu. En það er verið að ganga frá fjármögnuninni á þessu máli, þessum 2,8 milljörðum, í þessu fjáraukalagafrv. á grundvelli þeirrar heimildar sem er að finna í fjárlögum ársins. Þess vegna kemur þetta mál við sögu í frv. hér.