Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:49:11 (430)

2001-10-11 12:49:11# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:49]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það að fjárln. eigi að koma miklu meira að umfjöllun málsins, hvort sem menn kalla það samráð eða ekki, en ítreka það að hún er sú þingnefnd sem á að taka á fjármálunum og fjárlögunum. Mönnum er í lófa lagið að sækja um heimildir fyrir greiðslum. Það er ekkert óeðlilegt að forsendur fjárlaganna breytist með ýmsum hætti en þá er það hin rétta leið að fara með það inn í þingið fyrir fram. Það er hægt að gera í apríl. Það er hægt að gera í mars. Það er hægt að gera alltaf þegar þing starfar. Og sum af þeim útgjöldum sem við erum að sjá hér voru samþykkt af hálfu ríkisstjórnar meðan þing sat í vetur. Slíkt er náttúrlega ekkert nema að fara á svig við fjárreiðulögin, þó svo að hún beri þetta seinna upp með fjáraukalögum að hausti, en þá er búið að stofna til þessara útgjalda. Gjaldaliðir frv. eru fastsettir þannig að þar er meira en um áætlun að ræða í flestum tilvikum.

Þess vegna legg ég áherslu á það, herra forseti, að oftar en einu sinni á ári komi fram frumvörp um fjáraukalög þannig að Alþingi sé í rauninni virkt eins og lög kveða á um við ákvörðun útgjalda.