Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:51:02 (431)

2001-10-11 12:51:02# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:51]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú alveg fallist á það að fjáraukalög gætu komið oftar fram í þinginu en einu sinni á ári. Það er náttúrlega spurning hvað snemma það ætti að gerast, en að það væri að vori og svo aftur að hausti er ekki óeðlilegt. Hjá mörgum sveitarfélögum er fjárhagsáætlun endurskoðuð oftar en einu sinni á ári. Í raun er gert ráð fyrir því í ýmsum lögum um sveitarstjórnarmál þar sem um dýrar framkvæmdir er að ræða að leggja þarf þær undir félmrn. eða ákveðnar nefndir á vegum ríkisins vegna þess ríkið treystir ekki því að sveitarfélögin hafi þrek til þess að standa undir stórum og dýrum framkvæmdum.

Það er ýmislegt gert á vegum sveitarfélaga, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, sem mér finnst við vel geta lært ýmislegt af. Við höfum farið yfir það að erlendis er mjög mikill agi á fjárlögum víða, eins og t.d. í Bandaríkjunum þar sem stofnanir eru lokaðar ef fjárveitingar þrýtur áður en fjárhagsárinu lýkur. Við höfum kynnst því hér hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli að þar hefur komið upp sú staða að það átti að loka innan nokkurra klukkutíma áður en málinu var bjargað fyrir horn. Það var einfaldlega vegna þess að fjárveitingar til vallarins á ákveðnum sviðum höfðu klárast löngu áður en heimildir voru tilbúnar. Það varð uppi fótur og fit út af þessu máli.

Hér þekkist ekki neitt slíkt. En það má kannski grípa inn í áður og ýmislegt gera ... (JB: Það er búið að loka Staðarfelli.) Það er út af allt öðrum ástæðum. Það má ýmislegt gera áður en gripið er til svo róttækra ráðstafana, en þetta er samt eitthvað sem menn vita af.