Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 14:05:14 (572)

2001-10-16 14:05:14# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[14:05]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. 1. mgr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða kveður á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta þýðir að allir íslenskir þegnar eiga jafnmikið í þeim villtu fiskum, skeljum og öðrum sjávardýrum sem lifa á Íslandsmiðum og skiptir þá ekki máli hvort Íslendingurinn er nýfætt barn fátækrar konu, gamalmenni á elliheimili, sjö ára stúlka, tvítugur háseti eða fimmtugur útgerðarmaður. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta er nokkurs konar forsenda laganna og árétting þess hvaða hugarfar og viðhorf voru ríkjandi fyrir einum áratug þegar lögin voru sett.

Sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta eru dýr orð og mjög mikilvæg. Í þeim felst virðing fyrir öllum þegnum landsins og þau eru árétting þess að við búum í lýðræðisríki. Enn fremur kemur fram í 1. gr. I. kafla laganna um stjórn fiskveiða hvert markmið þeirra sé, þ.e. að þau eigi að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna, svo og að þau skuli einnig tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Að lokum er kveðið svo á um að úthlutun veiðiheimilda myndi hvorki eignarrétt né óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildunum.

Ég les nú, með leyfi forseta, 1. gr. I. kafla laga um stjórn fiskveiða:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Nú skal spurt: Hvernig hefur tekist til með framkvæmd þessara laga? Getum við sagt með sanni að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar? Getum við sagt að lögin hafi stuðlað að verndun nytjastofna Íslandsmiða? Getum við sagt að lögin hafi stuðlað að hagkvæmri nýtingu þessara sömu nytjastofna? Getum við sagt að lögin hafi tryggt trausta atvinnu og byggð í landinu? Getum við sagt að það viðhorf sem birtist í þessari 1. gr. um eignarréttinn eða óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildunum hafi verið rétt og virt?

Þegar við veltum þessum spurningum fyrir okkur er okkur öllum ljóst að við neyðumst til að svara öllum þessum spurningum neitandi.

Sú virðing sem kemur fram í 1. gr. fyrir eignarrétti íslensku þjóðarinnar hefur verið fótum troðin. Í mörgum tilvikum getum við sagt að lögin hafi ekki stuðlað að verndun nytjastofnanna, a.m.k. má leiða að því sterkar líkur. Það er áreiðanlegt að lögin hafa illa stuðlað að hagkvæmri nýtingu nytjastofnanna og enn áreiðanlegra er að þessi lög hafa alls ekki stuðlað að tryggri og traustri atvinnu og byggð í landinu.

Herra forseti. Öll ákvæði 1. gr. I. kafla þessara laga hafa verið brotin. Hægt er að sanna með upptalningu á ótal dæmum brottkast á smáum og stórum fiskum sem er staðreynd. Einnig er hægt að sanna með því að sýna fram á að ákveðinn hluti fiskiskipaflotans hendir í hafið þúsundum tonna af hausum, hryggjum og afskurði sem gætu aflað þjóðinni hundruð milljóna króna í gjaldeyristekjur, fyrir nú utan hvaða aðferðir eru notaðar þegar nýtingarstuðlar eru reiknaðir út í þessu sambandi. Það er svo sannarlega rétt þegar sagt hefur verið að samkeppnisstaðan í greininni sé kolvitlaus, röng og ill.

Við höfum einnig séð hvernig aflaheimildir hafa á einni nóttu skipt um handhafa eða jafnvel leigjendur svo þeir sem höfðu trygga atvinnu að kveldi voru allt í einu orðnir atvinnuleysingjar að morgni af því að aflaheimildirnar voru seldar eða leigðar kvöldið áður.

Já, 1. gr. I. kafla laganna um stjórn fiskveiða felur í sér háleita sýn og markmið. En margar aðrar greinar þessara laga eru ekki í anda 1. gr. a.m.k. verður ekki annað sagt um hvernig tekist hefur til með framkvæmdina, því framkvæmd þessara laga hefur orðið til þess að hinir efnilegustu útgerðarmenn og skipstjórar hafa breyst í spekúlanta verðbréfa og aura, sem hefur leitt til þess að skuldir útgerðarinnar í landinu hafa stóraukist og sumar þeirra svo mikið að nokkur fyrirtæki eru í stórhættu.

Á þeim rúma áratug sem lögin hafa verið í gildi má segja að bókstaflegt hrun hafi orðið víða um land. Einn af öðrum sigldu togararnir burt og kannski var ekki hjá öðru komist í sumum tilvikum. En að aflaheimildirnar hafi ekki verið eftir í byggðunum eða að fólkinu sem þar bjó hafi ekki verið gefinn kostur á að halda þeim eftir, er hin mesta ósvinna, ranglæti og heimska.

Framkvæmd og ýmis ákvæði fiskveiðistjórnarlaganna hefur orðið til þess að nú er sundur slitinn friður í landinu og svo hefur reyndar verið undanfarin ár. Þetta friðarrof og ósætti var orðið svo augljóst að hæstv. forsrh. sá sig knúinn til að gefa loforð fyrir síðustu alþingiskosningar um að komið yrði á sáttanefnd um sjávarútveg á Íslandi. Hæstv. ráðherra stóð við þetta loforð. Sáttanefnd var sett á laggirnar. En því miður eru vonbrigðin mikil. Naumur meiri hluti nefndarinnar hefur skilað áliti sem er í rauninni allt að því lítilsvirðing við lög og rétt í landinu. Niðurstaða þessa meiri hluta er að engu skuli breytt nema að hóflegt auðlindagjald skal nú lagt á sjávarútveginn, en þó þannig að önnur gjöld falli niður í staðinn.

[14:15]

Herra forseti. Um daginn fór ég niður á bryggju í sjávarplássi. Við hana lá u.þ.b. 30 tonna bátur. Þar um borð voru bræður tveir að gera netin klár. Ég spurði hvernig gengi hjá þeim. Þeir svöruðu að reksturinn gengi frekar illa því þeir hefðu veitt fisk fyrir 60 millj. kr. en hefðu mátt borga í leigu fyrir það 30 millj. Annar hver fiskur sem veiddist, og auðvitað komu aðeins stórir fiskar um borð í þennan bát, fór í lestar þess sem skráður var fyrir kvótanum og leigði þeim á kvótaþingi, sem sumir hafa kallað ,,leynimarkaðinn``.

Herra forseti. Allt frá því í vor þegar Alþingi Íslendinga fékk ekki að afgreiða frv. til laga um veiðar smábáta, sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og undirritaður lögðu fram, hafa verið haldnir fjölmennir fundir um allt land. Á Ísafirði var haldinn 800 manna fundur Vestfirðinga og í fyrradag var haldinn fjölmennur fundur á Austfjörðum. Þá hafa verið haldnir fundir sveitarstjórnarmanna og fjölmargra annarra. Alls staðar hafa þessir fundir krafist þess að þau lög sem gilda um veiðar smábáta verði tekin til gagngerrar endurskoðunar því fjölmargar byggðir landsins eru enn á ný komnar í uppnám. Mönnum hlýtur senn að verða ljóst hversu mikilvæg smábátaútgerð er orðin atvinnulífi og byggð í þessu landi.

Herra forseti. Gjaldþrot og atvinnuleysi blasa nú við fjölmörgu fólki og ríkisstjórnin daufheyrist við enda er hún ekki að hlusta. Það er að vísu eitthvað farið að tala um aukinn byggðakvóta til að setja enn einn plásturinn á hina miklu und íslensks sjávarútvegs. Hvar á þetta að enda?

Öllum hlýtur að vera ljóst hvers vegna þingflokkur Samfylkingarinnar hefur nú lagt fram það frv. sem hér er til umræðu. Það er gert til þess að jafna aðstöðu manna til að sækja sjóinn og koma á réttlátri úthlutun veiðiheimildanna. Það er gert til þess að 1. gr. I. kafla laganna um stjórn fiskveiða verði á ný hafin til vegs og virðingar og til þess að skapa megi sátt við íslenska útgerðarmenn og íslenska þjóð. Þetta verður að gerast.

Frumvarpið sem hér um ræðir gerir ráð fyrir fyrningarleiðinni sem æ fleiri sjá nú sem vænstan kostinn. Takmarkið er síðan að allar aflaheimildir til veiða á Íslandsmiðum fari á uppboð en að útgerðinni sé skipt í þrjá mismunandi flokka. Þá er möguleiki til þess að bæta þeim útgerðum sem keypt hafa sér aflaheimildir með ýmsu móti en auðvitað er það útfærsluatriði sem verður, eins og ég sagði áðan, að gerast í sátt við alla hagsmunaaðila eins og oft er komist að orði.

Herra forseti. Á þeim tímum sem við lifum núna verður okkur að vera ljóst að sættir og friður eru nauðsyn þess að gott og blómlegt líf þrífist í landi okkar. Þetta á ekki síst við innan þeirrar atvinnugreinar sem er grundvöllur afkomunnar um allt land. Þess vegna hlýtur Alþingi Íslendinga að taka fagnandi þessu frv. Samfylkingarinnar sem gerir ráð fyrir miklum og jákvæðum breytingum á stjórn fiskveiða hér í landinu.