Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 15:42:36 (586)

2001-10-16 15:42:36# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst eiginlega frábært að hv. þm. skyldi nefna þetta sem LÍÚ var að gera um daginn, að reyna að búa til einhverja grýlu úr þessu veiðigjaldi sem Sjálfstfl. ætlar að leggja á útgerðina ofan á óbreytt kerfi.

Ég hef gengið frá fyrirspurn --- ég veit ekki hvort búið er að dreifa henni --- þar sem farið er fram á svör við því hvað útgerðin í landinu borgar fyrir veiðiréttindi í dag. Þau eru ekki borguð til ríkisins. Það er ekki veiðileyfagjald Sjálfstfl. sem var samþykkt um helgina. Það er veiðileyfagjald þeirra sem núna eru handhafar kvótans og það eru engir smáaurar. Það eru ekki einhverjar milljónir af því tagi sem LÍÚ var að lýsa í auglýsingum sínum um daginn. Það eru margfaldar þær tölur sem LÍÚ var með í auglýsingunum.