Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:26:15 (592)

2001-10-16 16:26:15# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Karl V. Matthíasson vék áðan að því sem Landssamband íslenskra útvegsmanna var að dunda sér við um daginn, að finna út einhverja tölu á hvað væri borgað í fyrningu ef fyrningarleiðin yrði farin annars vegar og auðlindagjaldsleiðin hins vegar. Mig minnir að þeir hafi nefnt töluna 25 þús. kr. á hvern íbúa í auðlindagjald á Ísafirði. Það væri fróðlegt ef það yrði skoðað og hægt væri að reikna út hvað þær byggðir sem misst hafa frá sér allar veiðiheimildirnar --- hvaða byggð ætti maður að taka sem dæmi, ætli það sé ekki best að taka bara Bolungarvík sem missti frá sér svo til allar veiðiheimildirnar í stóra aflamarkskerfinu á nánast einu bretti til Grindavíkur, sennilega einhvers staðar á bilinu 5--6 þús. þorskígildistonn --- hvað skyldi hver Bolvíkingur hafa misst frá sér í eignum og tekjumöguleikum bara við það að horfa á eftir öllum aflaheimildunum burt, plús skipin, plús verðfallið sem varð í byggðunum og minnkandi atvinnu? Ég held að þessi reikningskúnst þeirra hjá LÍÚ hafi kannski vakið menn til umhugsunar um að það má reikna þetta líka á þennan veg og skoða hvað sum byggðarlög hafa raunverulega þurft að fórna í þessu kvótakerfi. Það eru engir smáaurar fyrir fólkið hvorki þegar þetta átti sér stað né til framtíðar.