Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:46:18 (627)

2001-10-16 17:46:18# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:46]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Skilaboð hv. 1. þm. Norðurl. e. til þeirra sem reka fiskvinnslustöðvar í dag eru þessi: Þið skuluð ekki skapa þannig skilyrði í fiskvinnslufyrirtækjum ykkar að fiskverkakonum verði útrýmt úr húsunum. Það er gott að heyra að fiskverkakonur hafi fengið þennan málsvara. Það er vel.

Það hefur alveg gleymst að tala um skipstjórakvóta þegar menn hafa verið að rekja sögu kvótakerfisins, hvers vegna hann var afnuminn. Af hverju var ekki settur á hásetakvóti og sjómannakvóti? Það hefði alveg mátt taka það inn í þessa umræðu áðan þegar verið var að rekja sögu kvótakerfisins.

Í sambandi við uppboðið. Í fyrsta skipti sem uppboð af því tagi sem við höfum nefnt færi fram, þá mætti alveg láta útgerðina fá þann pening. Það er alveg rétt og það yrðu góðar bætur.