Stækkun Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 13:39:29 (650)

2001-10-17 13:39:29# 127. lþ. 13.1 fundur 82. mál: #A stækkun Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ísland hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við fyrirhugaða stækkun Evrópusambandsins. Stækkunin er jákvæð fyrir Evrópu, bæði pólitískt og efnahagslega. Hún mun treysta friðinn í Evrópu, auka hagvöxt í umsóknarlöndunum og skapa traustara umhverfi fyrir atvinnulíf og viðskipti. Þetta er allri Evrópu í hag og þjónar einnig hagsmunum okkar Íslendinga.

Stækkunin felur í sér ýmiss konar möguleika fyrir okkur Íslendinga, en á móti kemur að óvissa ríkir um innflutningsskilyrði fyrir sjávarafurðir okkar eins og ég mun víkja að hér á eftir.

Ekkert bendir til þess að nokkur sérstök vandkvæði séu á stækkuninni fyrir Ísland þótt hafa verði þann fyrirvara á að viðræður eru ekki hafnar um aðlögun umsóknarlandanna að Evrópska efnahagssvæðinu. Við höfum látið það í ljós að við munum ekki fara fram á frekari hindranir í frjálsri för fólks en önnur EES-ríki. En við höfum áskilið okkur rétt til þess að beita öryggisákvæðum ef upp kæmi alvarleg röskun á vinnumarkaði.

Samningar okkar við umsóknarlöndin um fríverslun munu falla úr gildi við aðild þeirra að Evrópusambandinu, þar á meðal ákvæðin um fríverslun með fisk. Það þarf að semja við ESB um hvað við eigi að taka. Mikilvægir hagsmunir eru í húfi og hætta er á að markaðsaðgengi íslenskra fyrirtækja fyrir ýmsar sjávarafurðir muni ekki aðeins versna og við missa það forskot sem við njótum á þessum mörkuðum gagnvart samkeppnisaðilum innan Evrópusambandsins heldur eigum við á hættu að verða verr sett í ýmsum tilvikum. Þá mundi samkeppnisstaða okkar gagnvart samkeppnisaðilum innan Evrópusambandsins að öllum líkindum versna enn frekar ef öll þessi lönd taka upp hina sameiginlegu evrópsku mynt.

Hér á Ísland mikilla hagsmuna að gæta því að sum þessara landa voru eitt sinn, og hafa alla burði til þess að verða aftur, mikilvægur markaður fyrir ýmsar sjávarafurðir. Á hinn bóginn eru viðskiptin lítil um þessar mundir og stafar það af þeim samdrætti sem þessi lönd hafa mætt við aðlögun sína að frjálsum markaðsaðstæðum. Hér þarf því að finna sanngjarna lausn í samningum við ESB þar sem m.a. er tekið tillit til tapaðra sóknarfæra á þessum mikilvægu mörkuðum.

Ég hef margítrekað lýst yfir áhyggjum mínum yfir því hve markaðsuppbygging okkar hefur verið takmörkuð í þessum löndum. Norðmönnum hefur orðið betur ágengt og hafa þeir t.d. um 50% af fiskmarkaðnum í Póllandi meðan Ísland hefur aðeins 1%. Vafalítið hafa þeir haft að leiðarljósi að þessi markaðssókn gæti reynst þeim gagnleg í samningaviðræðum við ESB þegar þessi ríki hafa gerst aðilar að Evrópusambandinu. Utanrrn. hefur boðið útflytjendum til samstarfs til að bæta markaðshlut okkar og ráðuneytið hefur þegar hafið undirbúningsvinnu í þessu skyni. En hér dugar skammt vilji stjórnvalda því mikilvægt er að íslenskir útflytjendur skoði vel sóknarfæri á þessum mörkuðum og það er líka rétt að við höfum haft nánast lítið sem ekkert fjármagn til þessarar vinnu.

Fjölgun aðildarlanda mun gera rekstur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þyngri í vöfum og verður að mæta því með aukinni árvekni og framtaki. Á nýlegum EES-ráðsfundi hélt ESB því m.a. fram að stækkun mundi gera ríkari kröfur til einsleitni og að atkvæðagreiðslur innan Evrópusambandsins yrðu algengari. Af því mætti leiða að jafnvel enn þá minni möguleikar væru til að taka tillit til sérstakra aðstæðna, t.d. í EFTA/EES-ríkjunum, eftir að stækkunin hefur átt sér stað.

Einnig er rétt að hafa í huga að eftir stækkunina verða hin nýju aðildarlönd gagnaðilar okkar og munum við eiga mikið undir þeim eins og öðrum aðildarlöndum Evrópusambandsins varðandi rekstur samningsins. Þess vegna er mikilvægt að efla samstarf okkar við þessi lönd og að því höfum við unnið í utanrrn. eftir bestu getu og munum halda því áfram.