Endurskoðun á EES-samningnum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:01:54 (658)

2001-10-17 14:01:54# 127. lþ. 13.2 fundur 83. mál: #A endurskoðun á EES-samningnum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Hér hafa áhugaverðar upplýsingar komið fram og ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær. Ég tek undir þau orð að hann á vísan stuðning okkar í því sem hann er að takast á við. Staðan er erfið. Þetta er mjög varfærnislega orðað, þ.e. hugsanleg takmörkuð tæknileg aðlögun. Þannig er að á fundi á þriðjudag í EFTA/EES-nefndinni í Brussel talaði Brinkmann nokkur fyrir hönd Evrópusambandsins. Hann talaði þannig að opnað væri fyrir tæknilegar breytingar EES-samningsins. Hann sagði jafnframt að það væri opnað á að skoða breytingar sem tengjast niðurfellingu á fríverslunarsamningunum. Það er að sjálfsögðu stóra málið fyrir Ísland, hvort utanrrh. okkar tekst að ná þeim breytingum fram.

En herra Brinkmann sagði tvennt. Hann sagði annars vegar að aldrei hefði borist formleg ósk frá EFTA um að taka upp EES-samninginn. Það getur átt rætur í því sem hæstv. utanrrh. hefur sagt hér, að menn eru að störfum í vinnuhópnum og reyna enn að leita samstöðu um hvernig hægt sé að sækja á um breytingar.

Í öðru lagi sagði Brinkmann að til að unnt yrði að taka upp samninginn þyrftu EFTA-löndin að vera samstiga. Lesist: Þau eru það ekki í dag. Þau verða að tala einni röddu. Ég geri mér fulla grein fyrir því, herra forseti, að vandi hæstv. utanrrh. er ekki einvörðungu innan hans eigin ríkisstjórnar. Vandinn felst einnig í því að fá með sér vinaþjóðina sjálfa, Norðmenn, til að sækja á um sömu aðlögun, sömu þýðingarmiklu breytingar á EES-samningnum og við þurfum svo sárt á að halda.