Fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:06:30 (660)

2001-10-17 14:06:30# 127. lþ. 13.3 fundur 113. mál: #A fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Alþingi samþykkti í maí 1997 þáltill. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Ríkisstjórn á hverjum tíma gegnir afar mikilvægu hlutverki þar. Því verður að ætla að í hverju ráðuneyti hafi verið settar ákveðnar vinnureglur sem tryggi fjölskylduvænt umhverfi þeirra sem þar starfa.

Margir starfsmenn utanríkisþjónustunnar og fjölskyldur þeirra búa við ákveðna sérstöðu vegna flutningsskyldu. Tíður flutningur milli landa, sendiráða og starfsstöðva utanríkisþjónustunnar getur bitnað illa á þessum fjölskyldum, ekki síst á mökum og börnum þeirra sem starfa fyrir okkur, ýmist erlendis eða hér heima. Því þarf sértækar aðgerðir til að tryggja fjölskylduvænt starfsumhverfi þessa fólks og önnur kjör þeirra.

Mér er kunnugt um að í framhaldi af samþykkt þáltill. skipaði hæstv. utanrrh. sérstaka nefnd til að gera tillögur um mótun fjölskyldustefnu utanríkisþjónustunnar. Hún skilaði áliti sínu og tillögum í október 1998. Með nefndarálitinu fylgdi listi yfir þætti þar sem talið var að úrbóta væri þörf frá því sem áður hefði verið. Um er að ræða níu veigamikil atriði sem varða m.a. lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna, kostnaðarhlutdeild ráðuneytis í forskólagjöldum og skólagjöldum barna þeirra, sérstakir styrkir vegna fjölskylduheimsókna og styrkir vegna heimsókna barna starfsmanna til búsetustaðar erlendis, tengsl barna starfsmanna sem búsettir eru erlendis við íslenska skólakerfið, einkum með tilliti til íslenskukennslu og kennslu íslenskra fræða, aðstoð vegna móðurmálskennslu fyrir börn flutningsskyldra starfsmanna við heimkomu, öryggiseftirlit á heimilum starfsmanna erlendis og bókasöfn með íslensku efni í sendiráðum og fastanefndum.

Öll þessi atriði ásamt öðrum sem fram koma í áliti nefndarinnar eru afar mikilvæg til að skapa starfsfólki utanríkisþjónustunnar og fjölskyldum þeirra fjölskylduvænt umhverfi. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur tillögum nefndar sem hæstv. ráðherra skipaði um mótun fjölskyldustefnu utanríkisþjónustunnar verið fylgt eftir? Ef svo er, hver varð niðurstaðan varðandi þau níu atriði þar sem nefndin taldi að úrbóta væri þörf, samkvæmt sundurliðun í fylgiskjali með áliti nefndarinnar --- þeim atriðum sem ég fór yfir áðan?