Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:48:00 (676)

2001-10-17 14:48:00# 127. lþ. 13.4 fundur 63. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Það voru mjög alvarlegar upplýsingar sem hæstv. ráðherra kom með við þeim spurningum sem hann þó svaraði. Biðlistar hafa vaxið. Biðtími er sífellt að lengjast. Ráðherrann nefnir vikur, mánuði og allt upp í ár, ársbið eftir þjónustu. Vissir hópar fá enga þjónustu hjá þessari stöð. Fjöldi fatlaðra barna fær enga þjónustu, alls ekki meðan stöðin er svona aðkreppt fjárhagslega. Börn með Asperger-heilkenni fá takmarkaða þjónustu. Eldri börn með alvarleg þroskafrávik fá ekki þjónustu. Fullorðnir, 18 ára og eldri, fá enga þjónustu. Þó eru engin aldurstakmörk í lögunum um Greiningarstöðina. Stöðin hefur ekki bolmagn til þess að sinna skólabörnum með einhverfu og það er ekki hægt að sinna eftirliti og ráðgjöf með börnum með heilalamanir og börnum með sjaldgæfar fatlanir, þau fá ekki þjónustu. Þetta kom fram hjá hæstv. ráðherra.

Það er fjöldi barna sem þyrfti á þjónustu stöðvarinnar að halda sem fær hana ekki. Þetta er mjög alvarlegt. Þetta er stöðin sem greinir hvaða áframhaldandi þjónustu börn þurfa sem búa við alvarlegar fatlanir. Ég spyr hæstv. ráðherra og ég vonast til þess að hann svari því að úrbætur verði gerðar varðandi verkefni stöðvarinnar og fjármál hennar. Ég spyr í síðustu spurningunni: Eru uppi áform um úrbætur í málefnum stöðvarinnar og ef svo er, hverjar eru þær?

Það verður að koma viðbótarfjármagn. Þetta eru ekki stórar upphæðir sem við erum að tala um til þess að þessi merka stofnun geti sinnt því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum. Ég vonast til þess, herra forseti, að það komi í lokasvari ráðherrans eitthvað um úrbætur í málefnum stöðvarinnar.