Réttarstaða erlendra kvenna

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:52:34 (678)

2001-10-17 14:52:34# 127. lþ. 13.5 fundur 70. mál: #A réttarstaða erlendra kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Viruðlegi forseti. Í maí sl. var birt skýrsla jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins um svokallaðan heimilisþrældóm eða það sem nefndin kallar einnig nútímaþrældóm. Er þar átt við einstaklinga, í flestum tilvikum konur eða unglingsstúlkur, sem koma eða eru skikkaðar til starfa á einkaheimilum fyrir lág laun. Evrópuráðsþingið skilgreinir heimilisþrældóm þegar einstaklingi er gert með hótunum, beitingu á ofbeldi að inna af hendi störf og hljóta litla eða enga greiðslu fyrir, oft eftir að hafa verið ginntur til starfa á fölskum forsendum.

Þótt umræðan um þessi mál sé tiltölulega ný af nálinni er í skýrslu Evrópuráðsins nefnd nokkur dæmi. Árið 1994 rannsakaði nefnd í Frakklandi mál 200 einstaklinga sem sætt höfðu heimilisþrældómi og voru öll málin rekin fyrir dómi. 95% þolenda voru konur, flestar frá Afríku og Filippseyjum. 20% vinnuveitenda voru Frakkar, önnur 20% vinnuveitenda voru erlendir diplómatar.

Í Bretlandi hafa félagasamtök beitt sér í málum 4 þúsund kvenna sem hnepptar hafa verið í heimilisþrældóm. Þessar konur koma frá 29 þjóðríkjum, flestar frá Filippseyjum. Vinnuveitendur þeirra koma frá botni Miðjarðarhafs, Grikklandi, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Almennt er talið að mikill fjöldi kvenna sé í þessari stöðu í Belgíu, þá sérstaklega í Brussel, ekki síst vegna þess hve margir erlendir erindrekar eru þar að störfum. Sama gildir um Ítalíu. Þar er talið að þúsund kvenna séu í þessari stöðu og í Austurríki hafa þessi mál nýverið verið tekin upp á opinberum vettvangi.

Virðulegi forseti. Nú er ég ekki að segja að glæpir eins og heimilisþrældómur séu til staðar hér á landi. Evrópuráðið hefur hins vegar hvatt til umræðu um stöðu mála í aðildarríkjunum og sent frá sér ákveðin tilmæli um aðgerðir til að bregðast við glæpum af þessu tagi. Við erum svo sem ekki alsaklaus í þessum efnum. Laun kvenna sem komið hafa hingað til að vinna á einkaheimilum hafa fram til þessa verið ótrúlega lág og lítið sem ekkert eftirlit hefur verið með aðbúnaði þeirra.

Fyrir rúmu ári hélt forseti ASÍ því fram í dagblaði að í tilvikum þar sem um væri að ræða misnotkun á erlendu vinnuafli sem hér kemur til að vinna á einkaheimilum fari fjölgandi. Fyrir tæpu ári síðan lýsti hæstv. ráðherra því yfir að kannaðar yrðu aðstæður þessara kvenna hér á landi og á grundvelli þess komið með tillögur til úrbóta. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Er lokið könnun á aðstæðum, réttarstöðu og skyldum erlendra kvenna sem koma til landsins og vinna á einkaheimilum? Ef svo er, hver var niðurstaða þeirrar könnunar?

Nær könnunin einnig til þeirra sem starfa á heimilum fulltrúa erlendra ríkja sem hér dvelja um lengri eða skemmri tíma?

Hafa kvartanir eða kærur borist frá erlendum konum sem vinna á einkaheimilum hér á landi? Ef svo er, hve margar eru kvartanirnar, hver tók við þeim og hvernig hefur verið unnið úr þeim?