Réttarstaða erlendra kvenna

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:02:01 (682)

2001-10-17 15:02:01# 127. lþ. 13.5 fundur 70. mál: #A réttarstaða erlendra kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri sem við fáum til að ræða þetta viðkvæma mál. Það verður að segja eins og er að það eru engir í eins viðkvæmri stöðu og þeir sem vinna einir á heimilum, jafnvel einhvers staðar í dreifbýli. Þeir geta búið við mjög misjafnan kost, ég tala ekki um þegar um er að ræða hálfmállaust eða almállaust fólk frá fjarlægum heimshlutum.

Við megum þó ekki gleyma okkur alveg í hryllingnum vegna þess að margar þeirra stúlkna sem hér eru til umræðu koma hingað og vinna á góðum heimilum, njóta góðs atlætis og fyrir þær er þetta mikilvæg lífsreynsla. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa gott eftirlit en við megum ekki gleyma að það eru líka góðar og jákvæðar hliðar á þessu máli.