Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:13:02 (688)

2001-10-17 15:13:02# 127. lþ. 13.6 fundur 84. mál: #A endurgreiðsla virðisaukaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Þetta var einstaklega knálegt svar. Úttektin er hafin og þegar henni verður lokið verður skýrt frá niðurstöðunum. Þetta segir mér að e.t.v. sé hún komin í gang en það sé ekki tímabært að ræða þessi mál enn þá á hv. Alþingi.

Auðvitað er ég með þessari fyrirspurn að ýta við þessari úttekt, hafi fjmrn. ekki hafið þá vinnu sem þarf að setja í gang til að hægt sé að taka ákvörðun um það hvort endurgreiðslur virðisaukaskattsins verði hækkaðar úr 60% í 100%. Auðvitað var ég að vonast til að ráðherrann gæti upplýst um að þessi vinna tæki brátt enda af því að hún er í raun ekki mjög mikil. Ég hef sjálf upplýsingar um hvernig endurgreiðslum hefur verið háttað frá árinu 1990 og það er alveg ljóst að fjárhæðir voru hærri á árinu 1996 en árin á undan. Árið 2000 voru þær örlítið hærri en árin frá 1996. Það er alveg ljóst, eins og kom fram í greinargerð með frv. Samfylkingarinnar, að þessar fjárhæðir hafa lækkað.

Af hverju, herra forseti, lækka fjárhæðirnar? Af hverju? Það er vegna þess að það eru æ færri sem borga virðisaukaskattinn af þessari vinnu. Þegar fólk kaupir vinnu af þessu tagi þá fær það ótrúlegustu sögur af verðinu sem hægt er að fá þegar samið er beint og hins vegar verði án nótu, þar með án virðisaukaskatts. Í gangi virðist tvenns konar verð. Sá sem er að láta vinna fyrir sig og ætlar að borga virðisaukaskattinn fær verkið á allt öðru verði en sá sem gerir það ekki. Þess vegna, herra forseti, er þetta afar brýnt mál og ég vænti þess að fjmrh. komi með það hið fyrsta fyrir þingið.