Stytting rjúpnaveiðitímans

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:54:08 (702)

2001-10-17 15:54:08# 127. lþ. 13.9 fundur 94. mál: #A stytting rjúpnaveiðitímans# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Ég held að hér fari um margt fram þörf umræða. Ég vil benda á að akstur utan vega er bannaður með lögum um náttúruvernd og friðun, að viðlagðri refsingu. Auðvitað eiga menn að fara að þeim lögum.

Það er talað um að hlífa stofninum. Það er þarft markmið og göfugt að blessuð rjúpan hvíta, eins og segir í kvæðinu, eigi sér formælendur á hinu háa Alþingi. Það hlýtur alltaf að vera spurning hvort rétt sé að friða rjúpuna lengur í byrjun tímans eða fyrr í lok veiðitímans. Eins og hæstv. ráðherra benti á eru miklu meiri náttúruleg afföll fyrst og kannski er betra að veiðimenn fái að skjóta þá. Hugsanlegt er, og um það munu mér fróðari menn dæma, að sterkari fuglarnir komist lengur fram á vetur og þess meiri ástæða til að láta þá í friði og þeir séu líklegir til að byggja upp stofninn.

Inn í þetta hlýtur að koma það sjónarmið sem einnig varðar mannfólkið að veður eru válynd eftir því sem á vetur líður.