Ráðstefna um loftslagsbreytingar

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 13:55:36 (832)

2001-10-30 13:55:36# 127. lþ. 16.95 fundur 85#B ráðstefna um loftslagsbreytingar# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál upp á hinu háa AlÞingi.

Auðvitað er það svo að hið háa Alþingi forgangsraðar ferðum sínum og alþjóðasamskiptum en í því ljósi er nokkuð einkennilegt að ráðstefnan um loftslagsbreytingar skuli ekki vera ofarlega á þeim forgangslista miðað við mikilvægi málefnisins, herra forseti. Það má vel vera að í umhvn. hafi það eitthvað skolast til að fylgja því eftir að fulltrúar yrðu sendir til Marrakesh. Það var rætt eftir Kyoto-ráðstefnuna og eftir ráðstefnuna í Haag í fyrra en það hafa orðið formannsskipti í þeirri nefnd og menn hafa kannski ekki fylgt hlutunum eftir þess vegna. En sú sem hér stendur tók þátt í ráðstefnunni í Haag í fyrra og hafði af því mikið gagn, herra forseti, en það var auðvitað gert eftir óbeinum leiðum. Og þeir þingmenn sem þar voru frá hinu háa Alþingi voru fulltrúar í sendinefnd alþjóðaþingmannasamtakanna Globe. Þeir voru ekki fulltrúar Alþingis. Hins vegar sendu frændþjóðir okkar þingmenn, sendinefndir úr umhverfisnefndunum, til þátttöku á ráðstefnunni enda var full ástæða til, herra forseti.