Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 15:31:15 (854)

2001-10-30 15:31:15# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um áfangaskýrslu frá verkefnastjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ég flyt þessa tillögu ásamt hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur.

Mig langaði til þess að spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. iðnrh. væri í húsinu.

(Forseti (GÁS): Nei, hæstv. iðnrh. er ekki húsinu. Forseta var hins vegar kunnugt um þessa ósk hv. þm., um að hún yrði viðstödd þessa umræðu. Boðum hafði verið komið til ráðherrans um þau efni. Hún ku hafa verið að koma af fundi suður með sjó. En ég sé að hún var einmitt að koma í hús. Ég vænti því þess að ráðherrann verði komin í salinn eftir örfáar sekúndur eða mínútur.)

Hæstv. forseti. Tillögugreinin hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kalla eftir áfangaskýrslu frá verkefnastjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem helstu virkjunarkostir sem taka þarf ákvarðanir um á næstu missirum verði metnir.

Stjórnvöld taki mið af niðurstöðum áfangaskýrslunnar við val nýrra virkjunarkosta þar til rammaáætlunin hefur tekið gildi.

Í febrúar 1997 tók ríkisstjórnin ákvörðun um að iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, léti gera rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem skyldi lokið fyrir árið 2000. Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti og vera grundvöllur að forgangsröðun þeirra. Á fyrri hluta ársins 1999 var unnið að undirbúningi verkefnisins sem fékk kjörorðið Maður -- nýting -- náttúra; rammaáætlun um nýtingu jarðvarma.

Í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur á 126. þingi um hvernig vinnu við gerð rammaáætlunar miðaði í upphafi árs 2001 kom fram að verkefnastjórnin hefði sett sér það markmið að í lok árs 2002 mundi hún skila fyrsta áfanga mats á allt að 25 virkjunarhugmyndum af hugsanlegum 100 sem komið gætu til umfjöllunar í rammaáætlun.

Verður að telja það afar bagalegt að ekki sé að vænta mats frá verkefnastjórninni fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2002 þar sem taka þarf mikilvægar ákvarðanir um virkjunarframkvæmdir fyrir þann tíma. Er því með tillögu þessari lagt til að kallað verði eftir áfangaskýrslu frá verkefnastjórninni. Þar verði þeir virkjunarkostir metnir sem að mati iðnaðarráðherra þarf nauðsynlega að taka ákvarðanir um á því tímabili sem líður þar til fyrsti áfangi rammaáætlunar liggur fyrir. Slík skýrsla yrði forsenda ákvarðana stjórnvalda við val nýrra virkjunarkosta auk þess sem hún gæti komið í veg fyrir hatrammar deilur um virkjunarkosti.``

Hæstv. forseti. Við þurfum á meiri sátt að halda um virkjanir og stóriðju á Íslandi en ríkt hefur fram að þessu. Það eru fleiri en ég sem segja það. Mig langar til að vitna í orð hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. frá 10. september 2001, en þá lét hann eftirfarandi orð falla í Kastljósi ríkissjónvarpsins:

,,... og það skiptir miklu máli að menn sameini sjónarmið sem fylgja náttúruvernd og atvinnuuppbyggingu. Það höfum við í Framsóknarflokknum verið að gera, að reyna að finna sátt milli þessara sjónarmiða. Það er mjög erfitt en það er afskaplega auðvelt að standa á götum úti og hrópa allt niður og hafa ekkert í staðinn.``

Og þetta er að sönnu ekki í fyrsta skipti sem forustumaður í Framsfl. lýsir yfir vilja til þess að ná sáttum í einu af helstu deilumáum samtímans. Helsta tilraunin í þá átt var ramma\-áætlunin sjálf um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hins vegar hefur komið í ljós að sú áætlun kemur ekki í veg fyrir að Landsvirkjun fari fram með virkjanahugmyndir sínar og fái til þess liðsstyrk frá ríkisstjórninni og hæstv. iðnrh.

Mig langar til að vitna hér í grein sem Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, skrifaði í Morgunblaðið 5. september, en þar er hann að vitna til orða um þessi mál. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Forstjóri Landsvirkjunar mætir í Kastljós sjónvarpsins og ásakar Náttúruvernd ríkisins um að leggjast gegn öllum virkjunaráformum fyrirtækisins. Staðreyndin er hins vegar sú að Kárahnjúkavirkjun er eina virkjunarframkvæmdin sem Náttúruverndin hefur hafnað í mati á umhverfisáhrifum.``

Svo heldur áfram:

,,Á betri dögum tala ráðamenn hins vegar um nauðsyn þess að ná þjóðarsátt um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og í því skyni var kynnt rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að norskri fyrirmynd skömmu fyrir kosningar 1999.

Þegar Finnur Ingólfsson og þáverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Bjarnason, kynntu áætlunina hinn 9. mars sama ár er haft eftir Guðmundi Bjarnasyni í Morgunblaðinu deginum eftir að rammaáætlunin skuli ná til allra virkjunarframkvæmda annarra en þeirra sem þegar væru hafnar. Var þar fyrst og fremst átt við Fljótsdalsvirkjun og miðlunarlón við Eyjabakka.

Umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, sagði á Alþingi, hinn 14. febrúar árið 2000:

,,Virðulegur forseti. Ég tel rammaáætlun þá sem verið er að hefja vinnslu á núna, Maður, nýting, náttúra, mjög mikilvæga og mjög mikilvægt að fara í þá vinnu til að reyna að ná sáttum. Ég teldi ekki rétt að fara í stærri virkjanir án þess að búið væri að ná sáttum um þá rammaáætlun eða afgreiða hana sem heild eða ná niðurstöðu í henni sem heild. Ég teldi það ekki æskilegt.

En ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að að sjálfsögðu getur Alþingi tekið þær ákvarðanir sem það vill hverju sinni þannig að ekki er hægt að útiloka hér um aldur og ævi að teknar verði nýjar ákvarðanir. En að mínu mati er ekki meiningin með rammaáætluninni að setja í gang umfangsmikla vinnu og tína svo út einstakar virkjanir áður en við erum búin að klára þá áætlun vegna þess að það væri ekki í anda þess að ná sáttum um þessi virkjanaáform ef við höfum ekki svo til allt undir þegar við erum að ganga í þá vinnu. Ég tel því ekki æskilegt að taka stórar virkjanir út úr ...``

Þessi skilningur ráðherrans stangast nú á við raunveruleikann. Kárahnjúkavirkjun, Búðarhálsvirkjun og Villinganesvirkjun voru settar í mat á umhverfisáhrifum löngu áður en gert er ráð fyrir að fyrstu niðurstöður rammaáætlunar liggi fyrir haustið 2002. Einnig er hafin vinna við mat umhverfisáhrifum vegna stækkunar Kröfluvirkjunar, byggingu Núps- og Urriðafossvirkjana og væntanleg er matsáætlun frá Landsvirkjun um Norðlingaöldulón í Þjórsárverum, sem vafalaust mundi lenda mjög ofarlega í verndargildi, gæfist rammaáætluninni tími til að meta það enda njóta verin alþjóðlegrar verndar samkvæmt Ramsar-samningnum um verndun votlendis.

Iðnaðarráðherra, sem hefur lögsögu í málinu, tilkynnti verkefnisstjórn rammaáætlunarinnar með bréfi dagsettu 26. maí 2000 að hún mundi fá að ,,... koma sjónarmiðum sínum á framfæri í greinargerð áður en ráðherra tekur ákvörðun um útgáfu virkjunarleyfis``. Hvað Kárahnjúkavirkjun varðar mun verkefnisstjórn gefast tækifæri til að skila bráðabirgðaniðurstöðum.``

Þetta var þá, 26. maí 2000. Ég vitna hér í þessa umfjöllun Árna Finnssonar til að sýna hvernig sífellt hafa verið gefin loforð um að menn reyndu að ná sáttum og vinna að þessum málum þannig að sættir næðust, það yrði farið yfir öll þessi mál, reynt að raða niður virkjunarkostunum og ná sáttum um í hvaða virkjanir ætti nú að fara þannig að þegar að taka ætti ákvarðanir um nýjar virkjanir þá lægi sú vinna fyrir. Rammaáætlunin hefur hins vegar tafist. Við vitum að eins og er þá er gert ráð fyrir að hún liggi fyrir haustið 2002. Fram að þeim tíma er gert ráð fyrir að menn taki ákvarðanir um mjög mikilvæga virkjanakosti.

Tillagan sem hér er til umræðu er lögð fram í þeim tilgangi að hægt verði að skapa sátt um þær ákvarðanir sem teknar verða á þessum tíma, þar til rammaáætlunin liggur fyrir. Mér sýnist, og mér er engin launung á því, að það stefni í mikil átök um sumar vegna þeirra ákvarðana sem virðast liggja í loftinu. Landsvirkjun heldur ótrauð áfram t.d., að undirbúa ákvörðun um Norðlingaölduveitu sem virkjanakost. Kannski er þó ekki hægt að tala beint um virkjanakost en engu að síður, ætlunin er að virkja vatnið sem kemur úr Norðlingaölduveitu. Það er vitað fyrir fram að um þetta mál verða gífurleg átök. Náttúruverndarmenn hafa látið það koma mjög skýrt fram að þeir telji fráleitt að hafa áhrif á Þjórsárverin með þeim hætti sem gert er ráð fyrir með þessari Norðlingaölduveitu.

Ég verð að segja að mér finnst það makalaust ef menn ætla ekki að nota þá vinnu sem lögð hefur verið í rammaáætlunina til að meta þá virkjunarkosti sem afgreiða skal á næstunni. Ég óskaði eftir því að hæstv. iðnrh. yrði hér svo hún gæti svarað því hvort hún væri ekki sammála mér um að nota ætti vinnuna að rammaáætluninni til að komast að niðurstöðu um í hvaða röð eigi að virkja, fyrir þá stóriðju sem nú er verið að tala um að bæta við hjá landsmönnum.

Ég held að það væri mikið slys ef menn færu t.d. lengra og tækju ákvörðun án þess að bera saman við aðra virkjanakosti, m.a. ef menn tækju ákvörðun um að byggja virkjun í Norðlingaölduveitu. Nú veit ég ekkert út á hvað það gengur hjá Landsvirkjun að taka þennan kost fram yfir aðra. Ég veit að vísu að hann getur orðið tilbúinn eitthvað fyrr heldur en aðrir kostir. En ég veit líka að það eru ýmsir möguleikar til þess að virkja sem ekki eru mjög langt undan. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessu fyrirtæki, Norðuráli, sem verið er að tala um að nýti þá raforku sem þar yrði til, liggur ekki svo ósköpin á að það geti ekki beðið einhverja mánuði eða missiri eftir því að fá þá raforku sem hugsanlega fengist frá Norðlingaölduveitu.

En það eru fleiri virkjunarkostir sem þarna mundu líka koma til skoðunar. Ég geri alveg sama fyrirvara við þá. Auðvitað þyrfti að fá mat á þeim kostum frá fólkinu sem hefur verið að vinna að þessu verkefni, áður en ákvarðanir verða teknar. Ég spyr: Um hvað eru menn að tala þegar þeir tala um að tryggja sátt um virkjanaframkvæmdir og stóriðju á Íslandi? Ég spyr hæstv. ráðherra að því: Um hvað eru menn að tala í því sambandi?

Til hvers lögðu menn upp í gerð þessarar rammaáætlunar ef það á ekki að notfæra sér hana núna, þegar þó er ekki lengra í að hún verði tilbúin en raun ber vitni? Það liggur samt fyrir að það þarf að taka ákvarðanir, það bendir a.m.k. flest til þess að taka þurfi ákvarðanir um þessa virkjunarkosti? Eða ætla menn bara að halda áfram með bundið fyrir bæði augun og leggja í þann slag sem örugglega er fram undan ef ekki verður staðið faglega að þessu máli?

Við vitum að heimamenn, t.d. á áðurnefndu svæði, eru á móti þessari virkjun. Ég tel að það sé mikilsvert að menn reyni að vinna faglega að þessum málum þannig að málum verði ekki stefnt í enn verra horf en þarf þegar ákvörðun verður tekin um næstu virkjun.