Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 16:04:58 (862)

2001-10-30 16:04:58# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra leggjast lágt þegar talað er um okkur, sem viljum fara skipulega í hlutina hér í landinu, sem talsmenn þess sem ekkert vilja gera. Mönnum er fullkunnugt um það alls staðar í samfélaginu og líka á hinu háa Alþingi að deilan snýst um það hvernig á að fara í hlutina. Það er málið.

Við skulum bara átta okkur á því að ef mikill áhugi verður á þessari einhæfu framleiðslu áfram, þ.e. álframleiðslunni, þá eigum við ekki nokkra rafmagnsframleiðslumöguleika bara eftir þrjú til fjögur stórverkefni af þessu tagi í viðbót. Það er full ástæða til þess að setjast niður og skoða sinn gang og sjá hvert við stefnum í þessum málum. Þannig er staðan. Vinna að rammaáætlun er tilraun til þess og það á auðvitað að fjalla um hana á hinu háa Alþingi. Það er hápólitískt mál.

Þeir sem ekki vilja tillögur stjórnarinnar um einhvers konar uppbyggingu þurfa ekki að vera á móti öllu. Þeir vilja væntanlega eitthvað annað. Snýst ekki ágreiningurinn um það? Ef ég vil ekki dysja rusl á einum stað þýðir það ekki að ég sé á móti rusli og vilji hvergi dysja það. Ætli ég vilji kannski ekki einhvern annan stað eða aðrar lausnir? Þetta vil ég að komi fram.

Við erum með þetta verkefni fyrir austan upp á 7 teravattstundir og tvö eða þrjú önnur áform eru í gangi og maður var síðast um daginn að frétta af enn einu verkefninu og áhuga norður í Eyjafirði. Fljótt gengur nú á þær 25--30 teravattstundir sem þjóðin hefur upp á að hlaupa í raforkuframleiðslu. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess hraða sem nú er á málunum: Hvaða sýn hafa menn í framhaldi af þessu ef þeir ætla að nota þetta allt í þann einhæfa iðnað, álbræðsluna?