Háspennulínur í jörð

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:46:48 (924)

2001-10-31 14:46:48# 127. lþ. 18.4 fundur 154. mál: #A háspennulínur í jörð# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ein leið til að draga úr stórfelldum umhverfisspjöllum við virkjanir, bæði í byggð og á hálendi landsins, er að leggja háspennulínur í jörð. Á þann hátt bera hin dæmigerðu risavöxnu möstur útsýnið ekki lengur ofurliði og skyggja ekki á landslag og náttúru. Þótt ekki sé hægt að grafa slíka strengi hvar sem er, þá fylgir virkjanaframkvæmdum jafnan vegagerð. Verður að telja að strengjalögn, t.d. í stokk meðfram vegum og jafnvel um sæstreng milli svæða innan lands þar sem það á við, hafi verulega minni umhverfisáhrif en tröllvaxin möstur.

Erfitt hefur reynst að ná fram rétti náttúrunnar í umræðu um virkjanir á Íslandi. Þrátt fyrir að nokkur þekking hafi flust til landsins með fræðimönnum á sviði umhverfismála þá tala þeir enn fyrir daufum eyrum, því miður. Í mörgum löndum þar sem farið er að meta náttúruna til fjár horfa dæmin öðruvísi við. Ekki er réttlátt að sleppa svo mikilvægum þáttum við ákvarðanir um hvernig að virkjunum er staðið.

Flestum er ljóst að framkvæmdir skilja eftir sig varanleg vegsummerki í umhverfinu. Víst er að kröfur um að háspennulínur verði grafnar í jörð verða æ háværari. Í öðrum löndum er raforka í auknum mæli flutt með jarðstrengjum, einkum á lægri spennu. Í svari við fyrirspurn hv. þm. Drífu Hjartardóttur á síðasta þingi segir:

,,Erlendis hefur notkun á háspenntum jafnstraum við raforkuflutning leitt til aukinnar jarðstrengsnotkunar. Gera má ráð fyrir að svipuð þróun verði hér á landi við flutning raforku í framtíðinni.``

Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh. hve mikill aukakostnaður felist í að leggja háspennulínur í jörð, t.d. í stað umdeildrar loftlínu frá Sultartanga að Brennimel í Hvalfirði, eða t.d. frá fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun til Reyðarfjarðar.