Lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:22:53 (937)

2001-10-31 15:22:53# 127. lþ. 18.94 fundur 92#B lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. frummælanda fyrir að hreyfa því sem kalla má einn meginvanda íslensks þjóðfélags í dag, þ.e. lyfjanotkun hvort heldur er lögleg eða ólögleg. Á því sviði má segja að þar ríki sannarlega bæði skeggöld og skálmöld.

Við hljótum, herra forseti, að spyrja okkur hvers vegna slíkt ástand skapast, hvar liggja ræturnar? Ég hygg að ræturnar, hvort heldur við erum að ræða um eiturlyf eða svokölluð lögleg lyf, séu hinar sömu. Við þekkjum umræðuna um baráttuna gegn eiturlyfjum og nú bætist við umræða um svokölluð lögleg lyf og það hlýtur að vera skoðað afskaplega alvarlega að ef læknar taka þátt í því að misnota svokölluð lögleg lyf, þá er það alvarlegt mál og jaðrar við glæp.

Þjóðin stendur í stríði gegn því sem hefur verið réttilega kallað sölumenn dauðans, sölumenn eiturlyfja. Og sannarlega höfum við náð einhverjum árangri á því sviði. En betur má ef duga skal. Við leysum það auðvitað ekkert hér innan þessara veggja öðruvísi en að vekja máls á því og setja okkur ákveðin pólitísk markmið. Við þurfum að efla enn frekar þjóðarátak gegn ólöglegum og löglegum lyfjum. Til þess þarf að efla löggæslu og tollgæslu. Og sannarlega hafa lögreglumenn og tollverðir náð ágætum árangri.

En fyrst og fremst til lengri tíma litið hljótum við að horfa til forvarna þar sem foreldrar, heimilin, skólar, fyrirtæki, fjölmiðlar, nánast í öllum skúmaskotum þjóðfélagsins taki menn þetta alvarlega efni til umræðu og taki höndum saman því að hér þarf greinilega breytt gildismat og það gerist ekki nema með samstarfi og ábyrgð allra þegna þjóðfélagsins.