Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:59:55 (950)

2001-10-31 15:59:55# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi taka undir orð hæstv. iðnrh. varðandi stóriðju. Ég tel nauðsynlegt að ræða þá skýrslu sem hér er á dagskrá og vil þakka umræðuna. Umræða af þessu tagi þyrfti að fara fram mörgum sinnum á ári.

Grundvallaratriðið varðandi þessi mál er að landsbyggðin og fyrirtækin þar búi við jöfn skilyrði og þau sem staðsett eru í Reykjavík.

Hver er aðstöðumunurinn? Í hverju felst hann? Aðstöðumunurinn felst í lágu markaðsverði fasteigna í atvinnurekstri sem leiðir af sér lága veðhæfni og þar af leiðandi vandamál með fjármögnun atvinnurekstrarins.

Mjög fá atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni greiða tekjuskatt sem einhverju nemur. Þess vegna lýsi ég áhyggjum yfir fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að hækka tryggingagjald á þeim og þá ekki síst á bændum sem verður gert að bæta enn við rekstrargjöld með þessum skatti sem heitir tryggingagjald. Þess vegna skora ég á hæstv. byggðamálaráðherra að stoppa það atriði af.

Annað atriði sem ég vil nefna í hinum stutta ræðutíma mínum varðar ungt fólk. Ungt fólk kýs meiri hreyfanleika í búsetu og atvinnu. Það vill ekki lengur búa og vinna á sama stað alla ævi. Þetta leiðir til búferlaflutninga og þeir staðir sem bjóða upp á mesta fjölbreytni í búsetu og störfum eru eftirsóknarverðastir. Skortur á húsnæði á landsbyggðinni er líklega mest hamlandi nú um stundir því að á mörgum stöðum vantar fólk til starfa en ekkert leiguhúsnæði er til staðar. Þetta staðfestir sú skýrsla sem við ræðum nú. Um hana er margt að segja, margt gott að segja í heild, herra forseti, en ýmislegt í henni er þó hæpið.