Ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 10:52:54 (1066)

2001-11-02 10:52:54# 127. lþ. 20.91 fundur 97#B ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[10:52]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni alveg sérstaklega fyrir, í ljósi þess hver er upphafsmaður þessarar umræðu, að staðfesta hér að hann hafi heyrt mig gagnrýna stjórnarandstöðuna á þennan hátt áður og það hér í salnum þannig að hann hafi haft möguleika til þess að mótmæla. (ÖS: Með allt öðrum orðum, allt öðrum og vægari orðum en á fundi LÍÚ.)

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. um að hafa hljóð í salnum.)

Ég verð hins vegar að mótmæla því sem fram kemur hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að það hafi fyrir fram verið búið að ákveða eitthvað í nefndinni. Ég held að hann viti sjálfur að það er alrangt. Hins verð ég líka að leiðrétta hv. þm. Steingrím J. Sigfússon í þá veru að ég hef ekki lagt fram neinar tillögur í þessum efnum enn þá.

Það kemur mér hins vegar afskaplega mikið á óvart að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli væna mig um kjarkleysi. Ég er eiginlega mátulega ósáttur við að þingmaður sem ég þekki jafn vel og hann og ég veit að þekkir mig jafn vel og raun ber vitni skuli væna mig um kjarkleysi. Einhverra hluta vegna vill það svo heppilega til að ég hef í fórum mínum ræðuna frá því í gær. Reyndar er búið að birta þennan hluta sem hér er verið að fjalla um í Morgunblaðinu og ræðunni var dreift til fjölmiðla á fundinum þannig að hún hefði átt að vera öllum aðgengileg. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þennan kafla ræðunnar svo enginn velkist í vafa um hvað ég sagði og enginn efist um það að ég hef kjark til að standa við það sem ég segi annars staðar inni í þessum sal líka, eins og ég hef reyndar gert áður. Með leyfi forseta hefst lesturinn:

,,Góðir fundarmenn. Ég var staddur á fundi um sjávarútvegsmál í Sandgerði fyrir stuttu. Á honum kom fram í máli eins fundarmanna að hann taldi sig hafa verið svikinn. Hann hafi verið svikinn vegna þess að fyrir síðustu kosningar hafi verið lofað að sátt næðist í málefnum sjávarútvegs á Íslandi. Ég verð að játa að ég varð hissa á að heyra þessa fullyrðingu því auðvitað getur enginn lofað sátt fyrir hönd annarra.

Ríkisstjórnin gaf það loforð að reynt yrði að sætta sjónarmið í málefnum sjávarútvegsins og við það hefur verið staðið. Því eins og ykkur er kunnugt hafa tvær nefndir skilað skýrslum sem er ætlað að vera grundvöllur til sátta. Þetta er skýrsla auðlindanefndar og skýrsla nefndar sem fjallaði um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Í auðlindanefndinni var sátt um þá niðurstöðu að útgerðin skyldi greiða fyrir aðgang að fiskimiðunum og kynnti nefndin tvær leiðir til þess að ná þeim fram, veiðigjaldsleið og fyrningarleið. Nefndin gerði ekki upp á milli þessara leiða. Auðvitað er það líklegra til að ná fram samstöðu um grundvallaratriði að leggja til fleiri en eina leið. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að nefndarmenn urðu að takast á um það hvort útgerðin ætti að greiða fyrir afnot sín af auðlindinni eða ekki.

Endurskoðunarnefndin fékk að því leytinu erfiðara verkefni en auðlindanefndin að hún varð að skera úr um það hvora leiðina væri skynsamlegra að fara. Í mínum huga var ég þess fullviss að það hlytu að verða átök í endurskoðunarnefndinni um það hvort það ætti yfirleitt að taka gjald af sjávarútveginum. Ef og þegar menn næðu landi í því máli þá vonaðist ég til að hægt yrði að ná sátt um hvaða leið yrði farin. Ég segi vonaðist, því satt best að segja hefði verið barnalegt af mér í ljósi sögunnar að gera ekki ráð fyrir þeim möguleika að einstakir nefndarmenn hlypu frá því samkomulagi sem í raun átti að vera innsiglað í álitsgerð auðlindanefndar. En stjórnarandstaðan hafði þar þrjá fulltrúa. Klofningur varð einmitt raunin hvað niðurstöður endurskoðunarnefndarinnar varðar en meiri hluti hennar samþykkti að farin yrði leið hóflegs veiðigjalds.

En hver hefur svikið hvern? Í mínum huga er það alveg skýrt að þeir sem aldrei ætluðu sér að ná saman um meiri hluta nefndarinnar og hafa haft það að markmiði að halda uppi ágreiningi eru þeir sem við er að sakast. En vonandi munu menn þó að lokum standa saman að grundvallaratriðum í niðurstöðum auðlindanefndar sem er innheimta hóflegs veiðigjalds.``