Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:38:22 (1100)

2001-11-02 12:38:22# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:38]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þetta andsvar hv. þm. var eiginlega alveg með ólíkindum. Í fyrsta lagi reynir hann að draga það fram hér að þingmenn skuli tala saman í þingsal. Ég mun ekki þurfa að þiggja ráð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þó ég ræði hér við mína gömlu nemendur, hvar í flokki sem þeir standa.

Í öðru lagi reynir hann að draga það fram í efnislegri umræðu um frv. sem hér er til staðar og vitnar þá til þeirrar ræðu sem ég hélt, að ég hafi fallið frá skoðunum mínum. Það er nákvæmlega það sem ræða mín fjallaði um, hv. þm. Ef þingmaðurinn legði meiri áherslu á að fjalla faglega um mál og legði minna upp úr útúrsnúningum og upphrópunum þá hefði hv. þm. e.t.v. tekið eftir því að ég var að lýsa efasemdum og andmælum við kvótasetningu smábáta vegna þess að ég óttast um framtíðina.

En ég vek athygli hv. þm. á því enn og aftur að sú kvótasetning hefur átt sér stað. Hún er raunveruleikinn í dag. Það er ekki það sem er verið að fjalla um með því frv. sem hér er til umræðu, engan veginn. Og það er þess vegna sem ég segi að miðað við þá stöðu sem uppi er í dag þá er þetta skásti kosturinn. Besti kosturinn væri þó ef við gætum farið til þess samkomulags sem náðist 1996.

Herra forseti. Ég fæ ekki séð að í baráttunni sem Samfylkingin segist vera að fara út í sé verið að stefna að slíku samkomulagi. Ég fæ ekki séð að hún sé að draga upp gunnfána smábáta sérstaklega í þeirri baráttu sem hún er í. Þar er áherslan meira lögð á fyrningarleið og auðlindagjaldið. Það er ekki barátta smábátanna, enda minni ég á að hv. síðasti ræðumaður var ábyrgur fyrir hinu illræmda banndagakerfi sem var hér við lýði 1995 en til allrar hamingju er horfið.