Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:42:37 (1102)

2001-11-02 12:42:37# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:42]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Enn verð ég að leiðrétta ónákvæmni í orðalagi hv. þm. Hér er ekki til umræðu frv. um kvótasetningu smábáta. Ég verð enn og aftur að segja það. Það er til staðar. Lögin voru sett 1999, síðan var þeim frestað og þau tóku gildi þann 1. september.

Í þeirri stöðu hins vegar, ef ekkert er að gert, að því sögðu og út frá þeim veruleika þá tel ég að ef við legðum frv. sem hér er til umræðu til hliðar og ekkert yrði að gert þá yrði staða smábáta um land allt alveg skelfileg. Þess vegna hefur það verið í viðræðum, og kannski má segja að náðst hafi ákveðið samkomulag um það, að fara þó þessa leið út frá þeirri stöðu að kvótasetningin hefur átt sér stað.

Hvað varðar færeyska kerfið þá þekki ég það eins og hv. þm., enda gamall færeyskur sjómaður. Ég hef stundað sjó með færeyskum fiskiskipum og við fengum ágæta kynningu á því kerfi í sjútvn. hjá sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Ég sagði ekki að við ættum að stökkva til einn, tveir og þrír og taka það kerfi upp. Ég vara einmitt við einhverjum skyndibreytingum og kollsteypum í sjávarútvegi eins og öllu öðru atvinnulífi. Hins vegar hljótum við, og ég lýsti eftir því og hlakka til þess starfs í hv. sjútvn., að taka það kerfi til skoðunar og sjá hverjir eru kostir þess og gallar í samanburði við það fiskveiðistjórnarkerfi sem við störfum eftir. Það hlýtur að vera skylda okkar af því að þar er þó komið tiltölulega nýtt kerfi sem nær yfir alla þætti og við hljótum að skoða hvort það henti okkur. Ég er ekkert viss um að niðurstaðan verði sú. En miðað við þær fréttir sem við fáum frá frændum mínum og vinum í Færeyjum, ríkir þar a.m.k. almenn ánægja með það og því er eðlilegt að við skoðum það hjá okkur.