Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:48:00 (1105)

2001-11-02 12:48:00# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:48]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar geta þess að ég tel að við getum í raun og veru margt lært af Færeyingum. Ég gerði mér ferð til Færeyja um þetta leyti í fyrra, einmitt til þess að kynna mér fiskveiðistjórnarkerfi Færeyinga, og tel mig þekkja það allvel. Og eins og komið hefur fram hér hafa þeir líka heimsótt okkur og kynnt hv. sjútvn. sitt kerfi. Ég vildi bara skjóta þessu inn hér.

En þetta frv. sem við ræðum hér, frv. til laga um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, er auðvitað afleiðing af því að það á að viðhalda óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi og kvótasetja allt og halda áfram á þeirri braut sem verið hefur. Og það er náttúrlega stóra áhyggjuefnið.

Það er ein hugmynd í frv. --- til þess að vera jákvæður --- um að heimilt skuli vera að landa 5% meðafla. Þetta eru hugmyndir sem mikið hafa verið uppi til þess að koma í veg fyrir brottkast og í sjálfu sér er góðra gjalda vert að menn skuli velta fyrir sér möguleikum til að lagfæra það, en það er það eina jákvæða sem ég sé í raun og veru.

Staðan er nefnilega sú í þessu smábátakerfi að þessi nýja sókn í þrjár tegundir gagnaðist náttúrlega bara vissum landshlutum. Á því landsvæði sem ég bý, Norðurlandi, og austur um hefur þessi möguleiki að fiska ýsu og ufsa og steinbít frítt ekki gagnast trillum og þess vegna er staðan á þessum landsvæðum eins og raun ber vitni. Það er víðast hvar nánast hrun í trilluútgerð, smábátaútgerð, á þessum svæðum. Og ég held að við verðum að leita leiða til þess að taka heildstætt á þessum málum.

Við gerum okkur öll grein fyrir því að smábátaútgerðin á Vestfjörðum byggðist náttúrlega á því að það var frítt spil í þessar tegundir sem um er rætt. Þess vegna held ég að það gagnist í sjálfu sér mjög lítið að vera að tala um svona plástralausnir á grunni kerfis sem maður er í hjarta sínu alveg ósammála um að eigi að fá að viðhalda sér.

Við höfum lagt fram, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, okkar sýn og okkar tillögur um stjórn fiskveiða þar sem við leggjum til að fyrningarleið verði farin og kvóti eða veiðiheimildir verði bundnar við byggðarlög, eins og kunnugt er og við höfum sett fram hér í þinginu. Og ég tel að það sé hin eina raunverulega færa leið til þess að koma upp heildstæðu kerfi sem gagnist landinu öllu.

Í frv. er náttúrlega fyrst og fremst verið að bregðast við staðbundnum vanda á einu landsvæði, og það er góðra gjalda vert svo langt sem það nær. En það gagnast ekki inn í þá heildarsýn eða heildarmynd sem við viljum sjá í sambandi við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég held að við ættum ekki bara að líta til frænda okkar í Færeyjum, við ættum líka að líta til svæða eins og Evrópusambandsins hvað varðar nýjar hugmyndir um stjórn fiskveiða. Þeir eru að vinna sína grænu bók, grænu fiskveiðistjórnarbók, nýja sýn í nýtingu þessarar auðlindar sem byggir á allt öðrum forsendum en við vinnum eftir, samkvæmt þessu fiskveiðistjórnarkerfi sem hér er verið að festa í sessi. Evrópusambandið keyrir mjög mikið inn á strandveiðar, svæðisbundna nýtingu á fiskstofnunum, út frá þeim landsvæðum sem liggja að viðkomandi hafsvæðum. Og það er þveröfugt við þá línu sem keyrð hefur verið þar undanfarin ár.

Ég held að það sé alveg borðleggjandi að við verðum að huga að því miklu frekar að við erum með staðbundna stofna í okkar mikilvægu tegundum eins og t.d. þorski. Hjá Evrópusambandinu eru menn að tala um það fullum fetum að heildarkvótasetning, t.d. á þorski, sé e.t.v. alröng aðferð vegna þess að menn gera sér grein fyrir því að það eru staðbundnir stofnar þar eins og hér. Það er Aberdeen-hrygningarsvæðið, Helgoland, suður af Noregi o.s.frv. Í Norðursjó er t.d. bara gefinn út heildarkvóti á allt þetta magn.

Við höfum reynslu af og viðurkennum staðbundna stofna í sumum tegundum eins og rækju, Arnarfjarðarrækju eða Eldeyjarrækju. Það er mat margra að staðbundnir stofnar séu t.d. í þorski, og ef það er tilfellið og vísindaleg rök sýna það, sem margir eru sannfærðir um, er greinilega röng aðferð að gefa út heildarkvóta fyrir t.d. þorsk á þessum grunni.

Virðulegi forseti. Ég sem sagt lít á þetta frv. sem bara plástrun vegna þess að menn á stjórnarheimilinu hafa ákveðið að viðhalda núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þ.e. því sem verið hefur. Ég held að til lengri tíma litið verði þetta til stórtjóns fyrir strandveiðarnar. Það mun að öllum líkindum draga úr þeim vegna kvótasetningarinnar, jafnvel á þeim stöðum sem þessum lögum er ætlað að bæta fyrir, jafnvel á þeim stöðum þar sem það gerist núna tímabundið, og það er áhyggjuefni. Og ég er alveg sannfærður um að á grunni óbreyttrar sjávarútvegsstefnu komumst við hvergi í þessu kerfi hvað varðar rétt sjávarbyggða og strandveiðiflotans. Ég held að það sé meginniðurstaðan.

Ég bind enn þá vonir við að menn geti náð saman á hinu háa Alþingi og undið ofan af þessu kerfi á grunni einhvers konar fyrningar á löngum tíma, kerfi sem við erum öll svo ósátt við, þannig að aðlögun verði bærileg frá því að fara úr núverandi kerfi og yfir í annað nýtt. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Og ég held að það sé mjög mikilvægt að við útbúum kerfi sem gagnast landinu öllu og er heildstætt og hefur skýr markmið.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að fjalla um þetta frv. Það er kannski ekki ástæða til að fara efnislega mikið meira ofan í saumana á því við 1. umr. Við munum taka þetta til umfjöllunar í sjútvn. og fá til okkar sérfræðinga og fá útskýringar á því hvaða sýn stjórnarmeirihlutinn hefur varðandi framþróun á grunni þeirra aðgerða sem hér er verið að setja fram. Ég mun taka þátt í þeirri vinnu og reyna að halda fram okkar sýn á það hvernig breytingar við viljum á þessu fiskveiðistjórnarkerfi.