Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:19:53 (1126)

2001-11-02 15:19:53# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. var að rifja upp, ég var mikill talsmaður þess að fresta gildistöku ákvæðanna um smábátana um einhvern tíma. Ég barðist fyrir því strax þegar ég varð formaður sjútvn. að það væri gert, og það tókst sem betur fer að fresta því um eitt ár þó að ekki væri hægt að stóla þá á stuðning stjórnarandstöðunnar í því efni frekar en oft áður í góðum framfaramálum. En engu að síður tókst okkur að fresta gildistökunni um eitt ár og það var auðvitað mjög mikilvægt fyrir þessar byggðir.

Ég mat það þannig í vor og það var mat okkar margra sem höfðum verið í þessari sömu vinnu að það væri ekki til góðs fyrir okkur að fara með málið vanbúið inn í þingið án þess að hafa neitt í hendi og þess vegna var það skoðun okkar að skynsamlegast væri að gera það sem við gerðum í vor, að reyna áfram að vinna að því að auka veiðirétt smábátanna með öðrum hætti.

Hv. þm. spurði mig hvort ég væri ánægður. Ég tel að þetta sé viðunandi niðurstaða og þetta veitir þessum bátum aukinn fiskveiðirétt, og ég held að í raun og veru sé ekki svo mikill ágreiningur um að í meginatriðum sé þetta til að mynda varðandi ýsu og steinbít sá fiskveiðiréttur sem menn vilja að sé smábátamegin í pottinum þó að menn greini hins vegar á um veiðiaðferðirnar.

Hv. þm. spurði mig líka hvort ég teldi að frv. um stjórn fiskveiða kæmi fram í vetur. Ég hef gengið út frá því sem gefnu og man ekki betur en að í lista með stefnuræðu hæstv. forsrh. komi fram og sé boðað að slíkt frv. muni líta dagsins ljós. Þá verði m.a. tekin afstaða til spurningarinnar um auðlindagjald, fyrningarleið og það allt saman og síðan eru ýmis atriði sem þarf að líta til varðandi smábátana sem ekki er búið að ljúka og ég nefndi hér áðan einhver atriði í því sambandi.

Ég tel að hvað sem líður umræðunni um frestun og ekki frestun þá hefðum við á endanum þurft að komast að niðurstöðu því að málinu hefði ekki endalaust verið hægt að fresta og þá hefðum við orðið að taka afstöðu til þess hvaða veiðirétt við ætlum að láta þessa smábáta hafa og með hvaða hætti við ætlum að stjórna þeim veiðum.