Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:04:24 (1136)

2001-11-02 16:04:24# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hv. þm. áttar sig á hvað það er margt í þessu frv. sem í raun er að opna möguleika smábáta til þess að bjarga sér betur en þeir höfðu áður gert. Í 3. gr. eru náttúrlega þessi 2.300 tonn sem er á valdi ráðherra að úthluta.

En varðandi annað sem hv. þm. minntist á, sátt við sjómenn --- ég heyri ekki annað á þeim sjómönnum sem ég umgengst á mínu svæði en að þeir séu bara mjög þokkalega sáttir. Ég er ekki að segja að það sé 100% en það er mjög mikill einhugur að verða um það að ganga þessa leið, miklu meiri en var sem skiljalegt er enda var mikill hugur í mönnum þegar þessi umræða hófst. Ég heyri á mjög mörgum þessara manna að þeir hugsa sér gott til glóðarinnar að geta fjárfest og tryggt afkomu sína um ókomna tíð.