Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:10:00 (1139)

2001-11-02 16:10:00# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:10]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er hv. þm. að tala um sérhagsmuni og þegar mönnum eru afhentir sérhagsmunir eins og gert er í þessu kerfi komast þeir í þá stöðu að verja sína eigin sérhagsmuni. Þeir eru ekki að horfa á heildina í þessu, og ég tel að hv. þm. ætti að varast að nota orðið ,,sósíalísering`` þegar verið er að tala um þjóðarauðlindina. Hann vill sem sagt að hún verði í einkaeign, að hún verði endanlega tekin af þjóðinni með þessu fyrirkomulagi sem hér er, og henni komið í hendur einkaaðila til frambúðar til algjörrar eignar. Það er full ástæða til að fara yfir það inn í hvaða framtíð við erum þá að stefna og við gætum kannski gert það síðar í þessari umræðu vegna þess að ég tel að það sé alveg klárt mál að það muni ekki verða útgerðinni á Íslandi til framdráttar ef einkaeignin á veiðiheimildunum heldur áfram að þróast í þá átt sem hún er að gera.