Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:14:27 (1142)

2001-11-02 16:14:27# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi ekki nákvæmlega allt sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var að reyna að segja hérna. Ég skildi þó að hann hefði eitthvað fyrir sér um að smábátafélög vítt um land hefðu mótmælt og LÍÚ væri líka að mótmæla og ýmsir hefðu verið að mótmæla því hvernig ætti að leysa vandamál smábátaeigenda. Þessi mótmæli voru flestöll komin fram áður en búið var að negla niður hvernig þessi niðurstaða hér yrði.

Ég held að smábátaeigendur sem tóku þátt í þeirri afgreiðslu hafi í rauninni ekki vitað neitt hvað biði þeirra með því samkomulagi sem hér er þannig að ef farið yrði með þessa niðurstöðu inn í félög smábátaeigenda í dag er ég nokkurn veginn viss um að allt önnur niðurstaða kæmi út úr þeim samþykktum heldur en hv. þm. er að vitna í. LÍÚ er að sjálfsögðu á móti vegna þess að það er augljóst að þeirra hlutur mun minnka.

Ég ætla aðeins að fá að ræða um hitt atriðið. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað hv. þm. var að meina þegar hann talaði um sósíalisma eða sósíalíseringu en hann talaði um að hún væri hættuleg. Ég tek alveg undir það með honum --- ég held að hættulegt væri að fara út í það. En það sem ég er að meina varðandi þá útgerðarmenn sem eru með rétt til veiða í dag er að grunnurinn að honum var veiðireynsla þessara sömu manna í þrjú ár áður en kvótinn var settur á og þeir höfðu aflað sér þessara réttinda með þeirri reynslu. Þeir höfðu að sjálfsögðu einnig aflað sér þessara réttinda með þeirri fjárfestingu sem þeir höfðu lagt út í og þeirri vinnu sem henni hafði fylgt þannig að að því leyti til hafa menn öðlast mikinn rétt. Þeim hefur ekki verið færður sá réttur á silfurfati, öðru nær. Þeir hafa unnið fyrir honum. Þess vegna mundi ég segja að ef sá réttur væri tekinn af þeim og hann færður til ríkisins væri það sósíalísering.