Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:46:59 (1147)

2001-11-02 16:46:59# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Árni Ragnar Árnason nefndi ítrekað að ýmsir hv. þm. hefðu talað um svokallaðan gleymda flota en í rauninni gleymt honum. Það er aldrei mikil nákvæmni í málefnalegri umræðu að tala í slíkum dylgjustíl. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm. hverjir það eru, vegna þess að ég hef fylgst með þessari umræðu í dag og hef ekki orðið var við það að nokkur einasti þingmaður sem tekið hefur þátt í umræðunni hafi gert annað en að lýsa áhyggjum sínum yfir stöðu smábáta og aflamarksbáta.

Þetta frv. sem hér er til umræðu er jú til þess, eins og margoft hefur komið fram, að skapa ákveðinn tilverugrundvöll fyrir smábátaútgerð. Ég hygg að enginn hafi talað eða muni tala fyrir algjörlega frjálsum veiðum smábáta. Hins vegar kann að vera ágreiningur um með hvaða hætti megi takmarka þá sóknargetu sem þar er til staðar, það kunna að vera deilur um leiðir.

Ég held að hér hafi allir sem til máls hafa tekið lýst yfir ugg sínum vegna stöðu aflamarksbáta. En ég hjó eftir því að hv. þm. nefndi t.d. ekki einu orði frystitogara.

Þess vegna spyr ég hverjir það eru hér sem hafa beinlínis lýst því yfir að þeir beri ekki fyrir brjósti ugg yfir stöðu aflamarksbáta, jafnvel þó þeir styðji þær hugmyndir sem uppi eru um að skapa rekstrargrundvöll fyrir smábáta.