Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 16:32:46 (1236)

2001-11-06 16:32:46# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu félagslegs forvarnastarfs. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna rammaáætlun um eflingu hvers kyns félagslegs forvarnastarfs sem verði liður í aðgerðum til að berjast gegn notkun ávana- og fíkniefna, þroska félagsvitund og bæta andlegt og líkamlegt heilbrigði ungs fólks.

Áætlunin feli í sér úttekt á félagsstarfi sem til greina kemur í þessu sambandi, svo sem starfi á vegum félagsmiðstöðva, ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar, nemendafélaga, skáta, tómstundafélaga og trúfélaga. Einnig verði gerðar tillögur um með hvaða hætti vænlegast sé að efla slíkt starf þannig að árangur náist.

Heimilt verði að verja allt að 75 millj. kr. á árinu 2001 til að hefja framkvæmd átaksins og síðan allt að 200 millj. kr. árlega í fimm ár.

Ríkisstjórnin skili Alþingi árlega skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar þar sem árangur átaksins er metinn.``

Hér er um að ræða, herra forseti, endurflutta tillögu frá síðasta þingi er varð ekki útrædd þá. Tillagan er því endurflutt óbreytt ásamt þeirri greinargerð sem henni fylgdi.

Ljóst er, herra forseti, að af hálfu okkar flm. tekur þessi tillaga ákveðinn útgangspunkt í því alvarlega samfélagslega vandamáli sem aukin neysla fíkniefna er, en hún hefur víðari skírskotun eins og reyndar kemur fram í sjálfri tillögugreininni og ég kem nánar að síðar. Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa lýst vilja sínum til þess að bregaðst við fíkniefnavandanum og sumir jafnvel farið mikinn í loforðum eða fyrirheitum um myndarlegt átak og fjárveitingar í þeim efnum. Þessi tillaga er af okkar hálfu hugsuð sem innlegg í baráttuna gegn neyslu ávana- og fíkniefna og snýr eins og nafnið bendir til að félagslegum forvörnum. Um leið er ætlunin að stuðla að þroskandi þátttöku ungs fólks, bæði félagslega, andlega og líkamlega í uppbyggilegu félagsstarfi.

Það er ekki markmið forvarnastarfs í sjálfu sér að ráða fyrir um hegðun einstaklinga í stóru og smáu. Slíkt verða menn að gera sjálfir og axla ábyrgð á eigin örlögum en forvarnir snúast um að gera fólki grein fyrir þeim hættum sem t.d. notkun vímuefna eru samfara. Þær snúast einnig um að reyna að koma í veg fyrir að menn taki ákvarðanir um að fara að nota slík efni, vímuefni áður en þeir hafa þroska til og síðast en ekki síst að ef til neyslu kemur, þá verði hún ekki í óhófi.

Það er samdóma álit allra sem til þekkja og sinna forvörnum, heilbrigðismálum eða glíma við vandamál sem eru samfara ofneyslu vímuefna, að það eitt og sér að seinka notkun vímuefna, seinka því að notkun hefjist hjá ungu fólki sé alltaf til mikilla bóta, enda hljóti það að vera betur í stakk búið til að umgangast vímuefnin eftir því sem það hefur öðlast meiri þroska og þekkingu og svo eru einnig heilsufarsleg rök, herra forseti, sem falla í sama farveg að neyslan er heilsufarlega þeim mun skaðlegri sem hún hefst fyrr.

Félagslegar forvarnir hafa þann mikla kost að í raun eru þátttakendurnir sjálfir aðalliðsmenn í starfinu. Þeir eru að sinna eigin forvörnum með því að taka um leið þátt í þroskandi og uppbyggjandi starfi og sniðganga vímuefnin. Slíkt félagsstarf hefur líka til hliðar marga jákvæða kosti í för með sér. Það eykur samskiptahæfni fólks, eflir sjálfstraust og eflir því bjartsýni, kjark og virðingu og kennir mönnum á lífið. Aðalatriðið er að finna eitthvað sem er við hæfi hvers og eins. Þess vegna þarf átak af þessu tagi að hafa mjög víða skírskotun og fyrir fram á ekki að útiloka neitt tómstundastarf á vegum hvers sem er sem þátttakanda í aðgerðum af þessu tagi. Ef tillit er tekið til þess hversu geysivíða er unnið að félagsstarfi sem hefði jákvætt gildi í þessum efnum á vegum þeirra aðila sem taldir eru upp í tillögugreininni sjálfri, þ.e. félagsmiðstöðva, ungmenna og íþróttahreyfingarinnar, nemendafélaga, í skátahreyfingunni, í ýmiss konar tómstundafélögum, áhugamannafélögum, trúfélögum, úti\-vistarfélögum o.s.frv., þá er ljóst að mjög margir geta orðið virkir þátttakendur og liðsmenn í aðgerðum af þessum toga.

Mjög oft er ekki síst höfðað til íþróttahreyfingarinnar í þessu sambandi og víða er það nærtækasta röksemdin þegar menn eru að færa fram rök fyrir því að styrkja íþróttafélög, að íþróttahreyfingin og þátttaka í íþróttum sé í eðli sínu um leið gagnlegt og mikilvægt forvarnastarf og sem betur fer eru mjög miklar innstæður fyrir slíkum fullyrðingum þó að þær eigi ekki alltaf við. En kannanir sýna að íþróttir gegna stóru hlutverki í félagslegum forvörnum og þátttaka í þeim gagnast í baráttu gegn ávana- og fíkniefnum. Þar kemur til bæði mikið félagslíf sem íþróttaiðkuninni fylgir og unglingar sem stunda íþróttir eru einnig líklegri til þess að taka sér fyrirmyndir úr hópi íþróttafólks en vímuefnaneysla og íþróttaiðkun og afrek í íþróttum fara ekki vel saman eins og kunnugt er. Allt á þetta því að bera að sama brunni. Þetta á að stuðla að því að menn hugsi um heilsu sína og láti vímuefni ósnert.

Jafnframt er ljóst, herra forseti, að mikill fjöldi ungs fólks finnur ekki eitthvað við sitt hæfi á vegum ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar og brottfall úr íþróttum er mikið meðal unglinga. Þannig t.d. endast ungar stúlkur oft því miður mjög illa þegar kemur upp á unglingsár þó þær hafi hafið íþróttaiðkun sem börn og þá er mikilvægt að einhverjir fleiri kostir séu í boði. Þá komum við að félagsmiðstöðvunum ekki síst, sem víða gegna afar mikilvægu hlutverki í lífi nútímaunglinga og skipta sífellt meira máli. Þar er boðið upp á vímulaust og verndað umhverfi, umhverfi sem foreldrar geta treyst. Þær eru eftir því sem kostur er staðsettar í nærumhverfi fólks, þær eru í hverfum og þar er yfirleitt að finna starfsfólk með fjölbreytta menntun og reynslu þar sem ekki síst forvarnir eru áhersluatriði.

Starf félagsmiðstöðvanna er auðvitað afar fjölbreytt og ég treysti því að hv. þm. þekki almennt til þess og er ástæðulaust að taka tíma í að telja það allt saman upp. Um 70 félagsmiðstöðvar sem falla undir þá venjubundnu merkingu þess orðs eða hugtaks eru starfræktar víðs vegar um landið. Þar er unnið gífurlega mikilvægt starf við að mörgu leyti býsna takmarkaðar aðstæður, bæði hvað varðar fjárveitingar, húsakost o.fl. Yfirgnæfandi meiri hluti af þeim fjármunum sem félagsmiðstöðvarnar hafa handa á milli fara beint í laun eða allt að 92--97% eftir því sem könnun okkar flutningsmanna sýndi þegar við vorum að undirbúa þessa tillögu. Augljóst er því að ekki er mikið eftir til annarra þátta og með því einu að auðvelda félagsmiðstöðvunum að hafa fjármuni til að ráðstafa í verkefni tengd starfsemi sinni önnur en beinar launagreiðslur mætti gerbreyta aðstæðum í slíku starfi, gera það áhugaverðara og meira gefandi fyrir þátttakendur, unglingana sem þar koma við sögu. Það er auðvitað algerlega fráleitt að ætlast til þess að félagsmiðstöðvar færu að reyna að afla sér sértekna eða selja inn ef svo má að orði komast því að augljóslega mundi það fæla væntanlega fyrst frá þann hópinn sem mesta þörf hefur fyrir að eiga þar athvarf. Menn verða því þar af leiðandi að nálgast það mál með öðrum hætti. Það er án efa þannig að þó að víða sé mikill metnaður til staðar hjá sveitarfélögum og fleiri aðilum að styrkja starfsemi slíkra miðstöðva, þá mætti auðvelda það starf geysilega ef til staðar væru fjárveitingar og opinber stuðningur af því tagi sem tillagan auðvitað gerir ráð fyrir að komi til sögunnar.

Samkvæmt mælingum sem skoðanakönnunarfyrirtækið Gallup mun hafa gert, þá tekur meiri hluti unglinga þátt í starfi félagsmiðstöðva, þ.e. á bilinu 50--65% og það er ívið meiri þátttaka en t.d. er í íþróttaiðkun sömu aldurshópa. Félagsmiðstöðvarnar gegna því þarna gríðarlega stóru hlutverki og eru í vaxandi mæli einnig eins konar hverfismiðstöðvar. Þær eru í vaxandi mæli miðstöðvar foreldragæslu. Foreldravaktir á vegum foreldrafélaga í skólum styðjast við starfsemi félagsmiðstöðvanna. Þær eru gjarnan skipulagðar af starfsfólki félagsmiðstöðvanna í samstarfi við foreldrafélög og fleira mætti þar telja. Þær hafa þjónað talsverðu hlutverki í því einnig að reyna að gera umhverfið öruggara og tengja saman starfsemi foreldra, skóla og félagsmálayfirvalda eða bæjaryfirvalda o.s.frv. Dæmi eru um að mjög ungum börnum sé sinnt með starfi í frístundaheimilum með námskeiðum o.s.frv.

Ég vil nefna eitt mjög glæsilegt dæmi um starfsemi af þessum toga sem svo sannarlega ætti skilið að njóta meiri skilnings og það er starfsemi Apóteksins á Ísafirði þar sem um er að ræða mjög merkilega félagsmiðstöð, unglingamiðstöð sem ég veit að margir þingmenn þekkja og hafa heimsótt og væri einmitt glæsilegt dæmi um forvarnastarf og félagsstarf sem ætti að efla og mér liggur við að segja, herra forseti, stjórnvöld ættu að taka því fagnandi að fá tækifæri upp í hendurnar til þess að efla starfsemi af því tagi sem hugsjónafólk hefur komið á fót, t.d. í Apótekinu og á fjölmörgum öðrum sambærilegum stöðum, ekki síst í hinu skipulagða starfi félagsmiðstöðvanna um allt land. Þessi starfsemi vinnur gríðarlega gott starf við mjög takmarkandi aðstæður. Í grg. kemur fram, herra forseti, ef menn vilja lesa sér til um það sem er auðvitað ekki til þess að við getum verið mjög stolt af, að það muni vera algert einsdæmi t.d. innan Evrópusamtaka félagsmiðstöðva sem eru til og starfa að landssamtök félagsmiðstöðva eins og í okkar tilviki eru Samfés greiði alfarið kostnað af starfsemi sinni sjálf, þ.e. það byggist á félagsgjöldum og kostun en sé ekki stutt með opinberum fjárveitingum eins og auðvitað ætti að vera. Það er því einn þáttur og einn angi þessa máls að leggja fjármuni af hálfu hins opinbera til að auðvelda mönnum skipulagningu slíks starfs, auðvelda mönnum þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og annað í þeim dúr.

Margt bendir til þess, ef eitthvað er, að þörfin sé að aukast fyrir að þjóna ekki síst aldurshópnum 16--18 ára og þar ber ýmislegt til. Nefna má í því samhengi hækkun á sjálfræðisaldri og nefna má stöðu þeirra sem falla út úr skólum á þessu árabili og nálægum aldurshópunm. Sumir kalla þá gleymda hópinn í samfélagi okkar eða a.m.k. í röðum unglinga, ungs fólks, og eftir því sem almenn skólaþátttaka hefur náð lengra upp í skólastigum verður staða þess hóps sem fyrr dettur út úr skóla strax eftir að skólaskyldu lýkur á margan hátt erfiðari og sá hópur verður minnihlutahópur eða staða hans sérstakari ef svo má að orði komast. Við vitum að hætturnar bíða þar við hvert fótmál og það eru ekki síst slíkir hópar sem þarna á að hafa í fókus og horfa sérstaklega til.

Herra forseti. Ég vona að tillagan fái málefnalega og velviljaða skoðun á þinginu og mikið ánægjuefni væri okkur það ef hún fengist afgreidd og ég veit að það mundi ekki gilda síður um marga þá sem horfa vonaraugum til þess að Alþingi taki á þessum málum með einhverjum þeim hætti sem hér er lagt til.