Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 17:03:47 (1242)

2001-11-06 17:03:47# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er lögð fram till. til þál. um eflingu félagslegs forvarnastarfs. Tillagan er góð, og vona ég að hún fái jákvæða umfjöllun. Hér er rætt um að tengja saman ýmsa aðila sem vinna að félagslegu starfi með unglingum, eins og t.d. íþróttafélög og félagsmiðstöðvar, skáta og trúfélög o.fl.

Oft vakna spurningar, sérstaklega í sambandi við íþróttirnar. Við vitum að núna á þessari stundu, herra forseti, eru örugglega mörg hundruð unglingar í landinu í íþróttasölum víða um land á æfingum, í knattspyrnu, í handbolta, í fimleikum, í frjálsum og mörgu öðru, hjá ungmennafélögunum líka. Það má spyrja hvernig forvarnastarf sé unnið í íþróttahreyfingunni. Eru markvissir fundir með unglingunum þar? Er boðið upp á félagslegt starf? Er boðið upp á einhvers konar samkomur þar sem tengt er saman heilbrigt líf, íþróttir, bindindissemi og gæði þess að unglingar séu ekki í drykkju og neyslu vímuefna eða róandi lyfja eins og virðist vera farið að færast í vöxt hjá þeim að neyta samanber það sem kom fram í utandagskrárumræðu um daginn?

Hvert er markmið íþróttafélaganna? Íþróttirnar hafa á undanförnum árum tekið á sig breytta mynd. Gífurlega mikið fjármagn hefur komið inn í íþróttahreyfinguna og ýmsar íþróttir með aukinni atvinnumennsku. Því má spyrja hvort við séum farin að horfa of mikið á þann þátt, á kostnað þess afraksturs sem íþróttaiðkun og ástundun á að hafa, þ.e. það heilbrigða líf, gleði og ánægju, sem íþróttirnar eiga að veita, í stað þess að börn séu undir álagi vegna mikils kapps og mikilla væntinga foreldra eða umhverfisins um að þau standi sig svo vel að þau komist jafnvel í atvinnumennsku eða eitthvað slíkt.

Það sem er mikilvægast, herra forseti, þegar við förum að velta því fyrir okkur hvað skiptir mestu máli í íslenska samfélaginu, er náttúrlega heilbrigði og að fólki líði vel, fólk sé hamingjusamt og öruggt. Eitt af því sem grefur undan slíku er óregla, áfengisneysla og áfengisdýrkun sem birtist í ýmsum myndum, jafnvel á svo mótsagnakenndan hátt að maður sér fræg íþróttafélög vera að auglýsa bjór og áfengi. Það eru ákveðnar mótsagnir í því, herra forseti.

Ég tel vera mjög nauðsynlegt að fram fari samhæfing og samráð milli þeirra aðila í landinu sem vinna félagslegt starf með unglingum, og að það sé meðvitað hjá forsvarsmönnum þessara félagasamtaka að boða bindindissemi, að innræta börnum og unglingum hvað lífið getur verið gott og ánægjulegt og gleðiríkt án þess að verið sé að þamba bjór eða brennivín eða neyta annarra vímuefna. Mér finnst stundum vanta á að að lögð sé næg áhersla á þetta.

Það vaknar ein spurning í tengslum við þetta, herra forseti. Þegar hið opinbera leggur fram fjármagn í íþróttahreyfinguna eða alls konar starfsemi eins og félagsstofnanir og önnur tómstundafélög --- ætti ekki að vera skylda að eyrnamerkja ákveðinn hluta framlagsins forvörnum? Við gætum t.d. hugsað okkur að KR eða Valur eða Breiðablik fái ákveðnar fjárhæðir til þess að standa undir sínu starfi sem er náttúrlega mjög gott og nauðsynlegt en það sé skilyrt að ákveðinn hluti fjármagnsins fari í forvarnastarf beint, það sem lýtur að fræðslu um áfengismálin og fíkniefnamálin. Ég hvet til þess að þetta varði haft í huga þegar málið kemur til umfjöllunar, væntanlega í heilbrigðisnefnd.