Myntbandalag Evrópu og upptaka evru

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:23:28 (1275)

2001-11-07 14:23:28# 127. lþ. 24.1 fundur 195. mál: #A Myntbandalag Evrópu og upptaka evru# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég efast um að hæstv. utanrrh. gefist tími til að svara öllum þeim spurningum sem fyrirspurn mín hefur vakið í salnum. Ég ætla hins vegar að vitna í Morgunblaðið í dag þar sem fram kemur að hæstv. forsrh. á fundi Bresk-íslenska verslunarráðsins er einmitt að ræða þessi mál. Þar segir hann að það samræmist ekki hagsmunum Íslands að gangast undir sameiginlega viðskipta- og efnahagsstefnu Evrópusambandsins. Það væri fullkomlega ábyrgðarlaust, segir hann, ef íslensk stjórnvöld samþykktu aðild að Evrópusambandinu og tækju upp evruna án fullgildra raka um að íslenskt efnahagslíf væri í fullum takti við efnahagslíf evrulandanna.

Ég spyr og það er ástæðan fyrir spurningum mínum að undanförnu: Hvernig fáum við þessi rök upp á borðið til þess að geta tekið réttar ákvarðanir og brugðist rétt við? Hvernig og á hvaða vettvangi er lagt mat á þessa hluti? Hæstv. forsrh. setur ævinlega fram sínar eigin staðhæfingar og þær virðast gilda óháð því sem viðskiptalífið eða aðrir halda fram.

Ég þakka traustan stuðning formanns Vinstri grænna og hrós hans í garð fyrirspurnar okkar. Mér finnst þó reyndar að málflutningur hans sé mun skyldari málflutningi hæstv. forsrh. en óskum mínum um svör til að geta tekið afstöðu en ákveða ekki fyrir fram á eigin eða engum rökum hvernig hlutirnir eiga að vera.

Hæstv. forseti. Utanrrh. sagði að staða fyrirtækja yrði lakari. Það væri ekki auðveldara að tryggja stöðugt gengi og við mættum eiga von á vaxtamun sem hefði áhrif á hag neytenda og að stöðugt yrði að skoða stöðu okkar utan við bandalagið. Við verðum að ræða og skoða þessi mál. Það er eina leiðin til að taka réttar ákvarðanir á réttum tíma.