Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:48:05 (1356)

2001-11-08 13:48:05# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hefur einhver verið að væna hæstv. ríkisstjórn um misnotkun? Ekkert kannast ég við það. En hæstv. ráðherra virðist mér hafa tekist að klúðra þessu máli.

En hvernig stendur á því, og um það höfum við dæmi frá hæstv. landbrh. nýverið, að hæstv. ráðherrar koma þannig fram við löggjafarsamkunduna eins og hún eigi ekki fulla kröfu um fyllstu upplýsingar um einstök mál? Það er einfaldlega vegna þess að hæstv. ráðherrar líta ekki svo á að þeir séu bundnir á Alþingi. Eins og margsinnis hefur verið bent á líta þeir þannig á að Alþingi sé stjórnbundið en ekki öfugt. Við höfum hér hæstv. landbrh. sem svaraði út í hött fyrirspurnum sem honum ber skylda til að svara greiðlega, um sölu ríkisjarða. Nú kann allt að vera í besta lagi með það en hann vakti grunsemdir um að hann hefði margt að fela.

Ég var í þeirri stöðu einu sinni að hafa kynni af notkun flugmálastjórnarvélar, og hún var ekki þá til handa ráðherrum. Ég kannast ekki við það. En hvers vegna í ósköpunum var ekki komið hreint til dyranna og settar reglur um þetta og allt upplýst? Auðvitað er sjálfsagt að hæstv. ríkisstjórn notfæri sér þessa eign. Alveg sjálfsagt. En á mínum tíma var það að vísu ekki svo að menn þyrftu að þveitast landshorna í milli til þess að vígja nýja vegi beggja megin eða klippa á borða yfir brúm og ræsum.