Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 14:22:14 (1366)

2001-11-08 14:22:14# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um brunatryggingar. Umræðan hefur verið mjög tilfinningaþrungin og er það reyndar úti í þjóðfélaginu líka enda er um að ræða tjón á heimilum manna sem skiptir fólk oft verulegu máli.

Við ræðum hér um brunabótamat. Eins og orðið segir er það mat á bótum sem þarf að greiða verði bruni. Það hefur ekkert að gera með veð eða nokkra aðra þætti. Þetta er mat á bótum vegna bruna. Í tryggingum er eitt grundvallaratriði, þ.e. að fólk má ekki græða á því að verða fyrir tjóni. Það er reyndar líka reynt að halda því þannig að það tapi ekki heldur eða eins litlu og hægt er.

Nú er það svo að sumt er óbætanlegt. Myndasafn sem ferst í bruna verður aldrei bætt. Jafnvel ein mynd sem ferst í bruna verður aldrei bætt. Heimili fólks sem hefur búið í 40 ár á sama staðnum verður aldrei bætt því að það heimili er aldrei hægt að búa til aftur. Menn geta nálgast það með því að byggja nýtt hús en það verður aldrei gamla húsið, aldrei. Mér finnst menn blanda dálítið inn í umræðuna tjóni sem er í eðli sínu óbætanlegt. Þar kemur tilfinningahitinn inn í umræðuna.

Í tryggingafræðum eru notuð hugtökin nývirði og raunvirði. Nývirði er slík trygging kölluð þar sem alltaf er bætt með nýjum hlut fyrir gamlan. Þetta er mjög mikið notað, t.d. í innbústryggingum, vegna þess að það er einfalt. Menn áttu sjónvarp, það var reyndar orðið tíu ára gamalt og var farið að bila en þeir áttu þetta sjónvarp og það er á hreinu, þeir áttu þvottavél og eldavél o.s.frv. og þeir fá þetta allt nýtt. Það er nývirðistrygging. Þá er horft í gegnum það að menn ,,græði`` á tjóninu. Þeir fá allt nýtt. Þeir áttu að meðaltali helmingsgamalt en þeir fá allt nýtt. Þetta er iðulega notað í innbústryggingum en stundum líka í fasteignatryggingum.

Gallinn við nývirðistryggingar er að hvatinn til tryggingarsvika vex vegna þess að menn græða á tjóninu. Það þykir ekki gott. Auk þess er iðgjaldið að sjálfsögðu miklu hærra. Iðgjaldið fyrir nývirðistryggingar er miklu hærra en iðgjald fyrir raunvirðistryggingar, það vilja menn kannski ekki endilega því að þeir vilja fá tjónið bætt en ekki græða á því.

Í bílatryggingum og húsnæðistryggingum er þess vegna valin sú leið að hafa raunvirðistryggingar, þ.e. menn fá bætt það tjón sem þeir verða fyrir en ekki nýtt fyrir gamalt. Menn hafa hér í umræðunni verið að hnýta dálítið í tryggingafélögin en ef tryggingafélögin starfa á samkeppnisgrunni þá er iðgjaldið ekkert annað en áhættan plús sveiflur í áhættu og plús hagnaður félagsins. Ef áhættan er tvöfölduð með því að hafa nývirði í staðinn fyrir raunvirði þá hækkar iðgjaldið líka umtalsvert, getur tvöfaldast.

Að auki búum við við það á Íslandi að í húsatryggingum erum við með skyldutryggingu, einokun. Menn hafa valið það vegna þess að það er miklu ódýrara, það þarf ekki að auglýsa þær tryggingar og ekki að meta eignirnar af mörgum aðilum, sem kostar mikið.

Við búum líka við að það eru afskaplega fá tjón, sem betur fer, þannig að það verður sjaldan altjón. Svo er hins vegar ekki með bíla og þeir sem hafa lent í altjóni á bílum vita að bílar eru metnir niður. Ef einhver á tíu ára gamlan bíl þá fær hann ekki nýjan bíl ef hann verður fyrir tjóni.

Verðmæti húsa er samsett úr tveimur þáttum, þ.e. annars vegar af staðsetningu, hvar húsið er staðsett vegna þess að það er fast á jörðinni, og hins vegar af nývirði hússins, mínus afskriftir, plús endurbætur. Staðsetningin getur verið plús eða mínus. Við skulum hugsa okkur tvö hús sem eru nákvæmlega jafngömul og nákvæmlega jafnstór, sama teikningin. Annað er í miðborg Reykjavíkur og er selt á 40 millj. kr. Hitt er úti á landi í litlu þorpi þar sem allt er á niðurleið og það er selt á 5 milljónir. Í fyrra tilfellinu er staðsetningin hugsanlega helmingurinn af verðinu, þ.e. 20 millj. kr. bara fyrir staðsetninguna. En í seinna tilfellinu er staðsetningin mínus, hún er mínus 15 millj. kr. Verðmæti hússins sjálfs, þ.e. þessara tveggja húsa sem eru nákvæmlega eins, er þá 20 millj. kr. Þetta þurfa menn að hafa í huga líka.

Þess vegna gerist það að þegar hús brennur í Reykjavík í miðborg Reykjavíkur þá fá menn í fyrsta lagi bætt það tjón sem verður á húsinu sjálfu en auk þess eiga þeir byggingarrétt sem þeir geta selt á 20 millj. kr. í því dæmi, þ.e. staðsetninguna. Úti á landi fá þeir aftur á móti miklu hærra verð en verðmætið er almennt á þeim stað og oft er fólki boðið að það fái 75% af verðmætinu í peningum og þurfi ekki að byggja, vegna þess að það borgar sig ekki að byggja á þeim stað. Þannig er nú hinn harði veruleiki.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um 50 ára gamalt hús sem brennur. Það er afskrifað um helming, skulum við segja, ef það er afskrifað um 1% á ári. Þá segja menn: Það brennur þarna 50 ára gamalt hús, menn fá ekki nema helminginn greiddan. Hvað eiga þeir að gera, hvernig geta þeir byggt sér nýtt heimili? Það gera þeir að sjálfsögðu með því að kaupa sér nýtt hús og taka lán, nákvæmlega eins og öll önnur ný hús yrðu þau mikið veðsett, ný hús eru yfirleit 60--70% veðsett. Gömul hús eru aftur á móti yfirleitt veðlaus.

Það sem menn hafa verið að gagnrýna er mat á gömlum húsum sem eru eins og ný, þar sem viðhaldið er afar gott, búið að endurnýja allar rafleiðslur, allar lagnir, endurnýja timburverk o.s.frv., gólfefni, loft og þak, allt endurnýjað. Þetta er nýtt hús. Það eina sem er gamalt eru burðarveggirnir. Þá á að sjálfsögðu að meta þetta sem nýtt hús. Hafi menn athugasemdir við það, og hér hafa komið nokkur dæmi um það, þá er það gagnrýni á stjórnsýsluna, á matið, en ekki á lögin sjálf. Það er allt annar handleggur.

Ef gamalt hús sem var eins og nýtt brennur þá á að sjálfsögðu að bæta það sem nýtt af því að það var nýtt. Hafi því hins vegar ekkert verið haldið við í 50 ár þá er það lítils virði, þá stendur fyrir dyrum mikið viðhald, þakið lekur og allar lagnir ónýtar og húsið ekki mikils virði.

Menn hafa talað um að steinsteypa ætti að halda verðgildi sínu endalaust. Það væri heldur ekki rétt vegna þess að í gömlum húsum er hönnunin, þ.e. herbergjaskipan, ekki í takt við nýja tíma. Fólk vill ekki búa í húsi sem er með pínulitlu baði og pínulitlu eldhúsi þannig að jafnvel steinsteypan heldur ekki verðgildi sínu. Þær reglur sem eru í gildi í dag eru því nokkuð sanngjarnar og réttar, þ.e. ef menn vilja ekki hafa allt of hátt iðgjald og menn vilja fá bætt raunverulegt tjón. En svo þurfa menn alltaf að hafa í huga að sumt tjón verður aldrei bætt.

Hér hefur nokkuð verið rætt um lagasetninguna, herra forseti, og það er rétt að það voru gerð mistök. Menn áttuðu sig ekki á því að brunabótamatið hafði verið notað sem veðmat en það hefur ekkert með veðmat að gera. Eign úti á landi sem er að brunabótamati 20 millj. kr. en selst á 5 millj. kr. er að sjálfsögðu ekki meira virði sem veðandlag en 5 millj. kr. Þetta þurfa menn að hafa í huga. Þarna hefur brunabótamatið verið misnotað í opinberu lánakerfi. Ég hygg að lánakerfi sem væri í samkeppni mundi að sjálfsögðu aldrei nota brunabótamat sem veðandlag.

Þetta set ég fram til að varpa ljósi á þessa erfiðu umræðu sem er nokkuð flókin og mjög tilfinningaþrungin. Mér finnst ekki gott hve mikið tilfinningarnar vega í henni vegna þess að við erum að ræða um bætur sem eiga að bæta tjón, sem ekki er tilfinningatjón. Við getum aldrei bætt það.