Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 14:21:29 (1477)

2001-11-13 14:21:29# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hæstv. samgrh. var að fylgja úr hlaði er, eins og kemur fram í grg. með því og í máli hæstv. ráðherra, sett í framhaldi af mikilli umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu eftir hið hörmulega flugslys sem varð í Skerjafirði í fyrra. Kannski má einnig segja að það sé sett fram vegna þess að umræða í þjóðfélaginu varð miklu meiri eftir það flugslys en gengur og gerist. Það var náttúrlega vegna þess hve það var svo nálægt okkur og sýnilegt, ekki þar sem flogið var á fjall í dimmviðri eða eitthvað því um líkt. Sú mikla umræða sem hefur orðið í þjóðfélaginu í framhaldi af því er að skila þessum breytingum hingað inn eða því frv. og þeim ákvæðum sem hæstv. samgrh. er hér að flytja.

Það verður einnig að segjast alveg eins og er að mikill baráttuandi tveggja manna, Friðriks Þórs Guðmundssonar og Jóns Ólafs Skarphéðinssonar, fyrir flugöryggismálum í framhaldi af því hörmulega slysi þar sem þeir misstu ættingja sína, er aðdáunarverð og ég er hiklaust þeirrar skoðunar að sú umræða hefur átt mikinn þátt í að bæta flugöryggi í landinu og skapa meira traust hjá fólki sem notar flug, og það er vel.

Flugsamgöngur skipta okkur Íslendinga mjög miklu máli, annars vegar vegna farþegaflugs um hinar dreifðu byggðir og hins vegar gagnvart ferðaþjónustu í landinu. Skelfileg þróun hefur verið að gerast í þessum málum. Flugrekendur eru í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og tapa miklum peningum og flugfélögin hafa verið að draga saman seglin, hætta flugi til ýmissa staða sem er mjög alvarlegt mál. Og það er sama hvort menn ræddu um að Flugfélag Íslands hætti að fljúga til Vestmannaeyja --- sem betur fer kom Íslandsflug og tók við því flugi --- eða áform Flugfélagsins um að hætta að fljúga til Hornafjarðar, að maður tali nú ekki um þegar Flugfélagið hætti algjörlega að fljúga til Húsavíkur, á það mikla ferðamannasvæði sem þar er og hefur vafalaust skapað þar erfiðleika í ferðaþjónustu.

Þessu frv. er m.a. ætlað að styrkja stoðir Flugmálastjórnar vegna þess að stofnunin hefur verið gerð afturreka við málaferli þegar menn hafa kært það sem mönnum finnst glæfralegt flug. Þarna er sem sagt verið að fjölga þvingunarúrræðum, dagsektarvald er sett inn í og eiginlega má hiklaust segja að þetta sé í rétta átt. Við höfum örugglega orðið vör við að lögregla stoppar bíla úti á götu sem eru í slæmu ásigkomulagi að hennar mati og lögreglan hefur vald til þess að taka þá bíla úr umferð á staðnum.

Og það er sannarlega rétt ef svo hefur verið, og ég segi ef, að flugmálayfirvöld hafa talið sig vanta fleiri ákvæði inn í þetta, þá er það sannarlega gott ef þau er sett þarna inn. Spyrja má út í 84. gr. gildandi laga sem gerð er breyting á í 16. gr. frv., að mig minnir. Þar er fjallað um þetta og við þekkjum nokkur dæmi. Í umræðum um flugmál í samgn. hefur komið fram að menn hafa verið reknir til baka, dómstólar hafa jafnvel vísað máli frá. Ég hugleiddi það þegar ég las frv. yfir hvort þetta hafi virkilega ekki verið nógu sterkt orðað í lögunum, hvort einhverjir meinbugir hafi kannski verið á framkvæmd málssóknar að flugmálayfirvöld voru gerð afturreka með þetta. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh.: Hvernig hefur þetta mál verið? Hefur í raun og veru reynt virkilega vel á þetta úrræði? Hvað hafa verið mörg mál og hver varð niðurstaðan? Hvaða mál fóru alla leið til Hæstaréttar, hverjum var vísað frá o.s.frv.? Ég vona að hæstv. samgrh. upplýsi okkur um það á eftir og við fáum smáyfirlit um það hvernig þetta var og hvort það hafi verið virkilega svo að menn hafi talið sig vanta þarna ákvæði.

Í frv. eru flugverndarákvæði styrkt sem er eðlilegt í framhaldi af nýrri tegund hryðjuverka þar sem glæpamenn tóku heilu breiðþoturnar herskildi og notuðu til að fljúga á byggingar. Sannarlega er þörf á því og er náttúrlega það sem verið er að gera úti um allan heim og á það auðvitað að vera til þess að auka öryggi í flugi og gera það að verkum að fólk treysti sér til að fljúga, vegna þess að það yrði heldur erfitt fyrir efnahagskerfi heimsins ef fólk treysti sér ekki til að fljúga.

Á flugþingi nýlega, sem bar yfirskriftina Flugöryggi í dögun nýrrar aldar, kom margt mjög athyglisvert fram. Þar á meðal hlustaði ég á erindi sem flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands, Kári Kárason, flutti um flugöryggi í brennidepli. Eins og hann sagði var það í framhaldi af Skerjafjarðarslysinu 7. ágúst árið 2000 sem fjölmiðlar tóku mjög virkan þátt í þeirri umræðu. Mikil gagnrýni kom fram, bæði frá almenningi og fjölmiðlum og jafnt almenningur sem fagfólk sem stóð að henni. Það var ákaflega athyglisvert að hlusta á þennan mann tala um þessi mál og nefna t.d. öryggisnefnd flugmanna sem veitir aðhald t.d. við veðurlágmörk, takmarkanir vegna aðflugstækja, takmarkanir vegna brautarskilyrða og takmarkað flug að nóttu til, og nefndi sem dæmi mjög strangar kröfur sem gerðar hafa verið m.a. í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Og þeir sem hafa flogið til þessara staða þekkja að stundum þarf ekki mikinn vind úr ákveðinni átt til að allt verði ófært og oft hefur maður vafalaust hugsað sem farþegi, sem hefur ekki komist leiðar sinnar vegna þessa, að þarna séu kröfur allt of strangar, en manni kemur ekki til hugar að efast um að þarna sé faglega að verki staðið eftir að hafa hlustað á þennan fyrirlestur.

Það var ákaflega merkilegt þegar þessi flugstjóri tók sem dæmi flugslys sem varð 15. nóvember 1978 þegar DC 8-63 flugvél frá Loftleiðum fórst við Colombo-flugvöll á Sri Lanka, og hlusta á þá lýsingu hvernig flugmálayfirvöld þar í landi skelltu skuldinni strax á flugmennina. Sem betur fór var send nefnd frá Íslandi sem mótmælti þessu, hún skoðaði málið og útkoman varð allt öðruvísi. Þetta leyfði manni e.t.v. að hugsa hvort flugslysarannsóknir, flugslysanefnd viðkomandi lands og flugmálastjórn viðkomandi lands sé allt of nátengt. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til tals við samningu þessa frv. að aðskilja mjög greinilega á milli Flugmálastjórnar og flugslysanefndar þannig að hvergi sé hægt að ætla að þarna sé skipst á skoðunum, skulum við kalla það, meðan á rannsókn stendur. Og þetta dæmi sem ég vitnaði í frá Sri Lanka þar sem fyrsta niðurstaðan varð sú að flugmönnunum var kennt um slysið af þarlendum yfirvöldum en allt annað kom síðar í ljós.

[14:30]

Sýn þessa tiltekna flugstjóra á málið kom fram þegar hann endaði orð sín á þann veg að flugmenn, Flugmálastjórn og allir þeir sem vinna að flugmálum ættu að vinna að sama markmiði, sem er mjög göfugt. Lokaorðin voru að menn ættu að hætta að refsa og byrja að hjálpa. Þá kom auðvitað upp í huga minn það sem ég hef oft heyrt, að flugmenn veigri sér stundum við að benda á ýmis atriði og segja frá ýmsum atriðum sem betur mættu fara, vegna þess að mönnum yrði refsað fyrir það. Það leiðir hugann að því hvort refsivöndurinn stjórni svo miklu og óttinn við að segja frá komi í veg fyrir að hið sanna komi í ljós.

Hér hafa, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, stórauknar fjárveitingar verið veittar til flugöryggismála. Í huga minn koma margar spurningar í framhaldi af þessu. Ég hefði gjarnan viljað heyra útskýringar á því frá hæstv. ráðherra á eftir. En í athugasemdum með frv. frá fjmrn. kemur fram að samkvæmt mati Flugmálastjórnar sé kostnaður vegna flugöryggismála áætlaður 30 millj. kr. Í frv. til fjárlaga 2002 hefur verið gert ráð fyrir þessum kostnaði með því að færa fjárheimild af framkvæmdum á flugvöllum til reksturs Flugmálastjórnar.

Herra forseti. Mér finnst ekki mikill stæll á þessu. Það er verið að taka frá flugvöllum, e.t.v. einhverjum öryggisframkvæmdum, og færa það til Flugmálastjórnar. Mér er spurn: Hvaða stórkostlega auknu fjárveitingar til flugöryggismála er um að ræða í þessu máli? Svo er rætt um fleira í umsögninni með frv., um þessar tölur, þar sem verið er að leika sér með þær fram og aftur. Ég kem að því síðar, t.d. varðandi flugmiðaskattinn eða leiðarflugsgjöldin.

Herra forseti. Þar sem ég sit í hv. samgn. get ég metið þetta frv. betur. Það er yfirgripsmikið og við munum augljóslega þurfa að kalla til marga sérfræðinga til að ræða þessi mál og fá umsagnir frá mörgum aðilum.

Ég tók ekki eftir því hvort ráðherra var með einhverjar óskir um að þetta frv. yrði afgreitt fyrir lok haustþings. Ég held hins vegar að það sé engan veginn hægt, því miður, og vona að þar með sé flugöryggi ekki stofnað í hættu. Ég segi þetta eingöngu vegna þess að inn í umræðu í samgn. verður auðvitað að blandast þetta tiltekna flugslys, sem svo oft hefur verið rætt um í þessu sambandi, lögreglurannsókn sem er í gangi, og verður vonandi komin niðurstaða í áður en við ljúkum vinnu okkar í samgn.

Síðast en ekki síst þyrfti að bíða þeirrar skýrslu sem þeir aðstandendur sem ég nefndi í upphafi hafa beitt sér fyrir að óháðir sérfræðingar frá Cranfield, sem mér skilst að séu þeir bestu í heimi, skili um þetta mál allt saman. Hún verður auðvitað mjög mikið innlegg í flugöryggismál okkar Íslendinga. Ég segi þetta eingöngu vegna þess að ég er þess fullviss, líkt og hæstv. ráðherra, að ef við getum lært eitthvað af þeirri miklu umræðu sem hefur orðið í þjóðfélaginu vegna þessa hörmulega slyss þá verður það líka í skýrslu frá þessum óháðu aðilum sem mér skilst að starfað hafi að flugöryggismálum í Bretlandi í áraraðir. Mér hefur einnig skilist að flugöryggismál í Bretlandi séu með því besta sem gerist í heiminum.

Þetta vildi ég minnast á, herra forseti, vegna þess að í þessum skýrslum, lögreglurannsókn og skýrslu flugslysanefndar kann að vera fullt af atriðum sem snúa að flugöryggismálum sem við verðum að draga lærdóm af og setja inn í okkar löggjöf ef okkur finnst einhvers staðar vera brotalöm.

Í framhaldi af þessu. Vegna þess að hæstv. samgrh. lýsti því yfir opinberlega, þegar tilkynnt var að þessir óháðu sérfræðingar frá Cranfield hefðu verið fengnir til að vinna að þessu máli, þar sem ráðherra lofaði að um góða samvinnu flugmálayfirvalda á Íslandi yrði að ræða við þessa Breta langar mig að spyrja hvort hæstv. samgrh. getur upplýst þingheim um það hvernig þau samskipti hafa gengið fyrir sig, hvort öll þau gögn sem þessir óháðu sérfræðingar hafa kallað eftir berist þeim fljótt og vel. Þetta segi ég eingöngu til að leggja áherslu á að skýrslu frá þessum óháðu aðilum verðum við að fá til samgn. til að vinna okkar vinnu.

Herra forseti. Næsta á dagskrá fundarins er frv. sem ég er 1. flm. að, sem er um niðurfellingu á svokölluðum leiðarflugsgjöldum sem hæstv. ríkisstjórn setti á og var mótmælt af öllum flugrekendum. Hæstv. samgrh. hefur sagt að þessi flugmiðaskattur íþyngi mjög innlendum flugrekendum og boðar það í þessu frv. að hann verði lagður af. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum hér til að ræða það. Tími gefst fyrir það á eftir.

Ég gleymdi áðan, herra forseti, að spyrja um eitt sem rætt er um í frv., þ.e. ákveðna gæðastuðla fyrir flugvelli og flugstöðvar. Spurning mín til hæstv. ráðherra í þessu sambandi er: Hefur verið lagt mat á það hvort íslenskir flugvellir og flugstöðvar mundu uppfylla þau skilyrði sem hér eru eða mun þetta kannski leiða til þess að einhverjum flugvöllum og flugstöðvum úti á landi, þess vegna á litlum stöðum sem gegna aðallega hlutverki sjúkraflugvalla, verði lokað í framhaldinu? Með öðrum orðum, það þarf að tryggja töluverða peninga til þess að uppfylla þær kröfur sem við setjum þar?

Ég hef eina spurningu til hæstv. ráðherra í viðbót. Í þeim lögum og reglugerðum sem við ætlum að setja gerum við okkur auðvitað öll grein fyrir því að kostnaður íslenskra flugrekenda mun stóraukast. Þess vegna er lokaspurning mín til hæstv. ráðherra þessi: Var eitthvert mat lagt á það þegar frv. var smíðað eða er það einn af þeim þáttum sem við í hv. samgn. þurfum að fara í gegnum? Það er öruggt að þetta mun hafa mikinn kostnað í för með sér og miðað við það hvernig flugrekstur á Íslandi gengur er það náttúrlega mjög alvarlegt mál ef flugrekendur gefast hreinlega upp í framhaldi af þessum auknu kröfum.

Herra forseti. Umræða um flugöryggismál og innanlandsflug á Íslandi verður að vera þannig að trúnaðarsamband ríki milli flugmálayfirvalda og alls almennings í landinu. Farþegar og ættingjar þeirra verða að geta treyst því að öryggisreglum sé framfylgt og að öryggiseftirlit með íslenskum flugrekstri innan lands sé fullnægjandi.