Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:25:42 (1484)

2001-11-13 15:25:42# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst síðustu orð hæstv. ráðherra svona frekar undir beltisstað. Ég held að ég hafi lagt mitt af mörkum hér fyrir fleiri, fleiri málum sem hæstv. ráðherra hefur flutt, til að veita þeim brautargengi og ég hef oft og tíðum hælt ráðherra mjög mikið fyrir ýmis verkefni sem hafa komið fram.

En það er sannarlega rétt, herra forseti, að það ber að hafa allt sviðið undir þegar menn skoða gjaldtöku af flugfélögum og rekstrarskilyrði flugfélaga á Íslandi. Við skulum taka bara eitt dæmi sem snýr að efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar, gengisfellingu upp á 30%. Halda menn að hún sé mjög hagfelld fyrir íslensk flugfélög sem kaupa mest alla sína varahluti og annað slíkt í dollurum? Halda menn að það létti nokkuð rekstrarskilyrði þessara fyrirtækja hvernig farið hefur verið með gjaldmiðilinn okkar íslenska sem er gjörsamlega heillum horfinn og hruninn? Það er rétt með olíuverðið. Við getum minna gert að því. En hátt gengi, gengisfellingin, virkar nú vel inn á það. Halda menn að það sé eitthvað auðvelt fyrir íslensk flugfélög að reka sitt batterí í þessu umhverfi, jafnvel með ríkisstyrkjum vegna farþegaflugs og sjúkraflugs, þar sem tekjurnar eru eingöngu í krónum en stór hluti kostnaðar í erlendri mynt, t.d. leiga á flugvélum, kaup á varahlutum o.s.frv.?

Herra forseti. Þetta allt skekkir mjög rekstrarskilyrði íslenskra flugfélaga og reyndar allra atvinnufyrirtækja í landinu, ásamt því sem ber að nefna og ég ætla nú ekki að gleyma, okurvaxtastefnunni sem er bein afleiðing vitlausrar efnahagsstefnu og viðskiptahalla undanfarinna ára.

En þessi umræða, herra forseti, átti ekki að snúast um efnahagsmál. Hún átti að snúast um það að erfiðleikar íslenskra flugfélaga aukast og aukast vegna þessa sem ég hef hér nefnt, þ.e. hárra fargjalda því flugfélögin hafa þurft að hækka fargjöldin og fá færri farþega. Þannig heldur þessi vítahringur áfram.

Rétt er að flugmiðaskatturinn var ekki mjög hár. Hann var samt sem áður 50 millj. og hann átti að leggjast á íslensk flugfélög.