Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:34:00 (1487)

2001-11-13 15:34:00# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra kom hér inn á í lokin að ríkisvaldið og ríkisstjórnin verður að styrkja innanlandsflug til þess að halda því gangandi og halda þeirri þjónustu sem við viljum hafa þar. Og ég tel að þar séum við á réttri leið. Að vísu þarf enn að skilgreina hvaða innanlandsflug við ætlun að verja en það eru æ fleiri flugleiðir að koma þar inn.

Æskilegast hefði þó verið að flugumgjörð á Íslandi hefði verið með þeim hætti að hún hefði ekki þurft þessara ríkisstyrkja við. Og þar tel ég einmitt að hið frjálsa skotleyfi sem var gefið með því að gefa flugáætlun á alla flugvelli frjálsa fyrir nokkrum árum hafi einmitt átt sinn þátt í því að flýta þeirri þróun sem síðan varð að flugfélögin lögðu upp laupana með rekstur á hinum ýmsum flugleiðum.

Hæstv. ráðherra nefndi einmitt fáránleikann sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. að bjóða út flug til Gjögurs á hinu Evrópska efnahagssvæði. Hæstv. ráðherra kom einmitt inn á þann fáránleika sem við búum við, flugfélög standa ekki út um alla Evrópu í biðröðum til að fá að fljúga til Gjögurs. En íbúarnir þar og þjóðin öll vill væntanlega að haldið sé uppi sem bestum samgöngum við það byggðarlag og er þess vegna furðulegt að þurfa að bjóða slíkt flug út um alla Evrópu. Fáránleikinn sem við stöndum frammi fyrir í þessari einkavæddu samkeppni er því einmitt það alvarlega í þessu máli.