Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:53:59 (1633)

2001-11-15 14:53:59# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Eftir að Orkubúi Vestfjarða var breytt í hlutafélag í samráði við sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa staðið yfir samningaviðræður um kaup ríkisins á þessu fyrirtæki á verði sem ríkið hefur boðið og er sveitarfélögunum afar hagstætt, eins og fram hefur komið. Þessar samningaviðræður hafa staðið yfir og það er von til að þeim ljúki með góðu samkomulagi. Með því munu sveitarfélögin fá möguleika á að nýta til annars þessa fjármuni sem þau fá út úr sölunni, m.a. að styrkja fjárhag þeirra til hagsbóta til framtíðar.

Herra forseti. Það er rangt að tala um að ríkið sé að yfirtaka Orkubú Vestfjarða eins og frummælandi þessarar umræðu kýs að gera um leið og hann og aðrir hv. stjórnarandstæðingar leggja sig sérstaklega fram um að gera þetta mál tortryggilegt í hugum Vestfirðinga, heldur er hér um að ræða kaup ríkisins á þessu fyrirtæki sem byggjast á samningum við sveitarfélögin.

Það er ljóst að starfsemi orkubúsins hefur gengið vel undanfarin ár og rekstur þess hefur að mörgu leyti verið til fyrirmyndar. En við þær breytingar sem nú eru að verða á eignarhaldinu á þessu fyrirtæki er eðlilegt að sveitarstjórnarmenn og aðrir heimamenn á Vestfjörðum velti fyrir sér hvort breytingar muni verða á starfsemi fyrirtækisins, mannahaldi og yfirstjórn þess. Um það er nokkur óvissa í hugum manna. Það er því full ástæða til að hvetja til að slíkri óvissu verði eytt af hálfu ríkisins með yfirlýstum áformum um að ekki verði dregið úr umsvifum og starfsemi fyrirtækisins á svæðinu. Við þessar breytingar og við væntanlegar breytingar á raforkulögum opnast ýmsir möguleikar á að auka og efla starfsemina á Vestfjörðum og er ástæða til að hvetja til að slíkir möguleikar verði hagnýttir.

Herra forseti. Hér er um að ræða mikið byggðamál og eitt af grundvallarhagsmunamálum Vestfirðinga. Orkubú Vestfjarða er þeim hugleikið og það hefur veitt góða þjónustu og skapað mörg störf á svæðinu. Ég lít á það sem skyldu ríkisvaldsins sem væntanlegs eiganda fyrirtækisins að sjá til þess að hagsmunir íbúa sveitarfélaganna á Vestfjörðum verði tryggðir til framtíðar. Ég hef í raun enga ástæðu til að ætla að áform séu um annað.