Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 16:01:16 (1647)

2001-11-15 16:01:16# 127. lþ. 30.5 fundur 28. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um tillögu okkar hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar, um að verja nú þegar á þessu ári allt að 1 milljarði kr. til að greiða úr brýnum fjárhagsvanda sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðakerfisins.

Ég tel, herra forseti, að nær hefði verið fyrir hæstv. félmrh. að fagna liðsauka í þessum málum en vera að skattyrðast út í þá sem eru að veita stuðning þessu einu brýnsta máli sem hvílir á ákveðnum byggðum landsins.

Vegna þess sem hæstv. félmrh. nefndi um störf þeirrar nefndar sem hann hafði skipað að mig minnir í desember árið 2000 til að gera tillögur um endurbætur eða tillögur um hvernig mætti ráða bót á fjárhagsvanda sveitarfélaga vegna félagslega íbúðakerfisins og finna því varanlegan rekstrargrundvöll, vil ég leyfa mér, herra forseti, að vitna í hvernig fréttablaðið Bæjarins besta kemur að þessum tillögum. Bæjarins besta er blað þeirra Vestfirðinga, gefið út á Ísafirði, og vitnar í tillögu þessarar nefndar miðvikudaginn 29. ágúst árið 2001. Í þeirri frétt er verið að fjalla um viðræður milli sveitarfélaganna og ríkisins varðandi þau skilyrði sem ríkisvaldið setur fyrir hugsanlegum kaupum á orkubúinu og þeim kröfum sem það hefur uppi varðandi úrlausnir á fjárhagsvanda vegna félagslega íbúðakerfisins þar sem þeim finnst mjög harkalega að farið af hálfu ríkisins. En það segir um tillögur þessarar nefndar, með leyfi forseta:

,,Kemur það m.a. fram í minnisblaði félagsmálaráðuneytisins til Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 21. maí 2001. Það var einhugur meðal nefndarmanna um þá aðferð að gera upp stöðu fyrirhugaðra eignarhaldsfélaga um rekstur félagslegra íbúða í hverju sveitarfélagi árlega, í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Nefndin taldi sig ekki hafa umboð til að semja um slíka skiptingu en afstaða fulltrúa sveitarfélaga í nefndinni er sú að skiptingin verði 90% fjárframlag frá ríki á móti 10% framlagi sveitarfélaga árlega eftir þörf hvers eignarhaldsfélags. Nefndin lagði til að næsta skref væri að viðræður væru teknar upp milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun aðgerða og skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Í tillögum nefndarinnar er fjallað um lausn vandans á landsvísu og þar var ekki fallist á að leysa sérstaklega vanda einhvers ákveðins landshluta með öðrum hætti en annarra.``

Herra forseti. Í tillögu fulltrúa sveitarfélaganna í nefndinni er einmitt lagt til að þarna komi ríkið með meginhluta þess sem þarna þarf til þess að létta skuldunum af vegna félagslega íbúðakerfisins og gera það síðan áfram rekstrarhæft.

Ekki er mér kunnugt um að síðan hafi komið fram opinberlega frekari tillögur eða útfærslur á tillögum þeirrar nefndar sem hæstv. félmrh. gerði grein fyrir. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á eru hvorki í frv. til fjáraukalaga fyrir þetta ár né í frv. til fjárlaga næsta árs tilgreindar fjárhæðir til þess að koma til móts við hugsanlegar áætlanir ríkisstjórnarinnar um að ganga til samninga við sveitarfélögin um að aflétta skuldum á landsvísu vegna félagslega íbúðakerfisins og finna því rekstrargrundvöll áfram.

Það er því ljóst, herra forseti, að eins og staða málefnisins er í dag er ekkert að gerast, ekki nokkur skapaður hlutur og það, herra forseti, er ábyrgðarhlutur. Það er virkilegur ábyrgðarhlutur og fullkomið kæruleysi hæstv. ríkisstjórnar gagnvart þessu máli og gengur þvert á yfirlýsingar um að fundin verði leið og lausn til þess bæði að aflétta skuldum og finna félagslega íbúðakerfinu rekstrargrundvöll. Það er einmitt í þessu augnamiði og til að styrkja þetta mál að tillaga okkar er flutt.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að þegar hæstv. ráðherrar vilja frekar nota tímann til að skattyrðast og finna að því að á eftir þessum málum sé ýtt og finnist það koma við viðkvæm kaun, þá væri nær að verja frekar tímanum til að svara því til hvernig þeir ætla að uppfylla væntingar og loforð um að mál félagslega íbúðakerfisins verði leyst á landsvísu. Afar brýnt er að það sé gert núna strax og þessi tillögugerð miðar að því. Ég vona, herra forseti, að hún fái framgang og verði upphafið að því að á þessum málum verði tekið á myndarlegan hátt. Við höfum virkilega þörf fyrir það úti um byggðir landsins.