2001-11-19 15:40:45# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við skulum aðeins reyna að skrúfa til baka og reyna að halda okkur á mottunni, þ.e. við hina málefnalegu umræðu.

Hæstv. umhvrh. hóf mál sitt á því að slá okkur hálfpartinn út af laginu. Hér eru allir mættir í því skyni að reyna að eiga málefnaleg orðaskipti við hæstv. ráðherra og það er ómaklegt af hæstv. ráðherra að hefja mál sitt eins og hún gerði.

En gott og vel, höldum okkur við málefnin. Ég vil ásaka hæstv. ráðherra um að hafa farið með mjög svo ómálefnalegar tölur í máli sínu. Þær varða hnattrænan ávinning af íslenska undanþáguákvæðinu. Það er fals hjá hæstv. ráðherra að taka meðallosun frá álverum í dag og nota þá tölu í reiknikúnstum sínum og rökum fyrir því að hnattrænn ávinningur af íslenska undanþáguákvæðinu sé svo og svo mikill.

Hæstv. ráðherra skuldar okkur upplýsingar um hversu mörg álver í heiminum eru knúin með jarðefnaeldsneyti og hversu mörg álver í heiminum eru knúin með vatnsafli. Við skulum ekki halda að Ísland sé eina landið í heiminum sem geti búið til raforkuver með vatnsafli. Ónei. Víða eru álver knúin orku frá vatnsaflsvirkjunum og við skulum þá taka ofan fyrir hæstv. ráðherra ef hún leggur það til á alþjóðavettvangi að hnattrænn ávinningur verði af undanþágu Íslendinga með því að fyrir það álver sem reist er á Íslandi og knúið er með vistvænum orkugjöfum þá sé aflagt annað álver úti í heimi sem knúið er með jarðefnaeldsneyti. Þannig væri hæstv. ráðherra að berjast fyrir hnattrænum ávinningi --- öðruvísi ekki.