2001-11-19 20:00:31# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:00]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt hafi ég valdið hv. þm. vonbrigðum og ef honum hefur fundist ég vera hrokafull. Það var sannarlega ekki meiningin. Varðandi atvinnuuppbyggingu um allt land þá deilum við hv. þm. auðvitað áhyggjum. Þar eru stjórnarliðar og stjórnarandstaðan auðvitað, þegar vel viðrar, að reyna að leita sameiginlegra lausna.

Framtíðarsýn mín fyrir ungt fólk í þessu landi gengur út á annars konar atvinnutækifæri en þeir sem reka áliðnað geta boðið upp á. Mín framtíðarsýn byggir á sjálfbærni. Ég vil geta gortað mig af ákvörðunum sem lúta að lögmálum sjálfbærni þannig að við þurfum ekki að ganga á náttúrlegar auðlindir okkar og skilja landið eftir fyrir afkomendur okkur, ég segi ekki í rúst en alla vega meira eða minna stórgallað.