2001-11-19 20:06:41# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:06]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi öll þessi tækifæri sem eru í raun við hvert fótmál, stundum þurfum við að opna augu okkar fyrir því að þau séu til staðar, þá vil ég að lokum segja að orka stjórnvalda er afar dýrmæt. Eins og fram hefur komið í máli mínu í dag hefur mig tekið sárt að sjá stjórnvöld, fleiri ráðuneyti, a.m.k. þrjú, eyða öllu þessu púðri í að laða hingað risafyrirtæki á sviði áliðnaðar.

Ég veit að ég mæli fyrir munn ungu kynslóðarinnar að miklu leyti þegar ég segi að stjórnvöld eiga mikinn mannauð í ungu kynslóðinni. Ég veit að hæstv. iðnrh. veit það. Það sem gert er á því sviði að efla ungu kynslóðina til dáða fyrir eigið hyggjuvit, fyrir eigið afl --- allt slíkt átak kemur til með að skila sér og verða íslenskri þjóð og íslensku samfélagi til góðs.