2001-11-19 20:27:45# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:27]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. er því miður enn við sama heygarðshornið. Það á sem sagt að fylgja meiri hlutanum, stjórnarmeirihlutanum í þessu tilfelli, alveg sama hver málstaðurinn er og ég á þá von á því að það eigi við öll önnur mál. Og þeir sem kunna að vera ósammála stefnu ríkisstjórnarinnar eru að beita bellibrögðum, sagði hæstv. iðnrh. Hvað á hæstv. iðnrh. eiginlega við? Hvað er orðið um lýðræðislegan rétt hv. þm. og allra annarra til þess að vera á annarri skoðun en hæstv. iðnrh.? Gerir hæstv. ráðherra sér grein fyrir út í hvaða fen hún er að vaða í umræðunni um lýðræði og virðingu fyrir skoðunum annarra þar sem stjórnarandstaðan gegnir mjög veigamiklu hlutverki? Og að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér að koma hingað og tala um bellibrögð finnst mér fyrir neðan allar hellur.