Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:22:58 (1784)

2001-11-20 14:22:58# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Veruleikinn er þessi: Starfskjör og starfsumhverfi sjúkraliða eru í óefni komin, um það er ekki deilt milli stjórnar og stjórnarandstæðinga hér í þessum sal.

Áhyggjur hæstv. heilbrrh. af ástandinu og jákvæður vilji hans til þess að taka á því dugir afskaplega skammt. Fyrir því er ein meginástæða: Tómlæti samstarfsflokksins, Sjálfstfl., á málefnum heilbrigðisþjónustunnar í heild og breidd er algert. Fjmrh., sem fer með kjaradeilu sjúkraliða við ríkið, lætur ekki svo lítið að vera hér við þessa umræðu og sýna henni eðlilegan áhuga. Það vekur auðvitað athygli alveg sérstaklega.

Nei, staðreyndin er sú að Sjálfstfl. vill veikja heilbrigðiskerfið innan frá, fara hina gamalkunnu leið þegar tilgangurinn skal helga meðalið, að veikja opinberar þjónustustofnanir innan frá þannig að hægt sé að bjóða upp á hina sígildu lausn markaðshyggjunnar og einkavæðingar. Það blasir við í þessu máli sem og svo mörgum öðrum þegar kemur að grundvallarþjónustu við fólk í landinu.

En vandamál sjúkraliða eru auðvitað víðfeðmari en svo að þau snúist eingöngu um nánasta starfsumhverfi þeirra. Hér eru málin hvert af öðru að koma í þennan sal, vandamál sem ríkisstjórnin getur ekki, hefur ekki þrek til að taka á og leysa. Áhugaleysi þeirra á málefnum sjúkraliða sem hefur verið viðvarandi vandamál til margra ára er talandi dæmi um þetta. Herra forseti. Ég segi það eitt: Fara ekki að koma kosningar? Getum við ekki farið að skipta þessu liði út og skipa öðru óþreyttu inn?