Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:31:25 (1787)

2001-11-20 14:31:25# 127. lþ. 32.2 fundur 282. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (gjald fyrir rekstrarleyfi) frv. 153/2001, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, sem samþykkt voru á síðasta þingi. Það er stjórnarfrv., 282. mál þingsins á þskj. 340.

Með frv. þessu er lögð til breyting á 13. gr. laganna en hún fjallar um gjaldtökuheimild Vegagerðarinnar sem ætlað er að standa straum af kostnaði sem hlýst af námskeiðahaldi, útgáfu leyfa og eftirliti samkvæmt lögunum. Upphæð gjaldsins tekur mið af þeim kostnaði sem hlýst af veittri þjónustu Vegagerðarinnar.

Við meðferð frv. á Alþingi í vor var gerð veruleg breyting á ákvæðinu og virðist sem misritun hafi verið gerð þegar þær breytingar voru lögfestar. Vegna misritunar í 1. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna fellur gjaldtaka vegna almennra rekstrarleyfa fyrir fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga undir sama töluliðinn. Upphaflega ætlunin var sú að 1. tölul. tæki einungis til vöru- og efnisflutninga en 4. tölul. tæki á almennum rekstrarleyfum fyrir fólksflutninga. Benda má á að engin rekstrarleyfi falla nú undir 4. tölul. 13. gr. sem tilgreinir þessar 10.000 kr. Gjaldið fyrir almennt rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga var 7.000 kr. og samkvæmt frv. í vor var ætlunin að hækka það í 10.000 kr. í samræmi við raunkostnað af veittri þjónustu.

Með frv. þessu er lagt til að nýr töluliður bætist við núgildandi lög þannig að gjald fyrir almennt rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga verði 10.000 kr. Þessi breyting er nauðsynleg til þess að kostnaður Vegagerðarinnar verði borinn uppi af leyfisgjöldum. Að öðrum kosti stendur þessi þjónusta ekki undir sér.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.