Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 15:46:03 (1799)

2001-11-20 15:46:03# 127. lþ. 32.4 fundur 288. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (hækkun gjalds) frv. 125/2001, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Með lögum nr. 34/2000, um breytingu á gjaldtökuákvæðum nokkurra laga á sviði sjávarútvegs, voru m.a. lögfestar fjárhæðir sem renna til reksturs veiðieftirlits Fiskistofu. Fram að lagabreytingunni var fjárhæðum breytt árlega með reglugerð. Við útreikning á gjaldinu var miðað við áætlaðan kostnað Fiskistofu af rekstri veiðieftirlitsins enda eftirlitsgjaldinu ætlað að standa undir þeim kostnaði. Gjaldinu var skipt þannig niður að leyfishafar greiða annars vegar gjald fyrir leyfi til veiða í atvinnuskyni og hins vegar gjald sem ákvarðast af úthlutuðu aflamagni --- eða lönduðum afla --- hvers skips í þorskígildum talið.

Til að halda sömu reglu er hér lagt til:

1. Að gjald fyrir leyfi til veiða í atvinnuskyni hækki úr 15.000 kr. í 16.500 kr. Með þessu móti hækka tekjur af gjaldinu á árinu 2002 um 3,7 millj. kr.

2. Að gjald á úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla metið til þorskígilda í tonnum skuli hækka úr 424 kr. í 462 kr. Í fjárlögum ársins 2001 er gert ráð fyrir að innheimta vegna gjalds á úthlutaðar aflaheimildir nemi um 176,5 millj. kr. Gjald vegna fiskveiðiársins sem hófst 1. september sl. og lýkur 31. ágúst 2002 verður lagt á 1. desember nk. Úthlutun þorskígilda vegna fiskveiðiársins liggur fyrir og er um 382.400 þorskígildi. Til að ná markmiðum fjárlaga er því lagt til að gjaldið hækki úr 424 kr. í 462 kr.

Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.